Ekkert hlaupið í dag því öðru var reynt að sinna. Þetta er náttúrulega frekar aum afsökun en svona verður þetta stundum.
Stóra Baugsmálið hefur tekið nýja vendingu. Tölvupóstar milli Styrmis G. og Jónínu Ben. hafa ratað inn á ritstjórn Fréttablaðsins. Það er ekki nema tvennt til í þessu. Annað hvort hefur Jónína sent blaðinu þá sjálf af hvaða ástæðu sem ég skal ekki segja til um hver er en mér finnst sú skýring vera ólíkleg. Hin skýringin er að einhver hafi brotist inn í tölvuna hennar og afritað tölvupóstana. Ég sé ekki aðrar skýringar líklegar.Vonandi kemur fljótt í ljós hver er hin sanna.
Í kvöldfréttum sjónvarpsins var greint frá því að fyrirtækjum í Noregi verði lokað ef stjórnir þeirra innihalda ekki að lágmarki 40% af öðru hverju kyninu fyrir árið 2007. Lögin sem sett voru fyrir nokkrum árum um að skylda eigendur fyrirtækja til að velja einhverja aðra en þá sem þeir vilja í stjórn fyrirtækja sinna hafa sem betur fer ekki virkað. Svona kynjafasismi er náttúrulega alveg fáránlegur. Hvenær fara hommar og lesbíur að heimta aðild að stjórnum fyrirtækja í hlutfalli við hlutdeild sína af íbúafjölda þjóðarinnar? Ég er handviss um að svona rugl stenst ekki stjórnarskrána. Sem betur fer hafa fæst nálæg lönd, ef nokkurt, hermt þessa vitleysu eftir Norðmönnunm. Ég á hins vegar alveg von á því að raddir þess efnis að skylda fyrirtæki að hafa að lágmarki 40% annað kynjanna í stjórninni munu verða fyrirferðarmeiri hérlendis á komandi árum. Það er alveg á hreinu að ef ég væri í einhverri stöðu til að láta reyna á réttmæti svona laga þá myndi ég gera það fyrir öllum þeim dómstólum sem mögulegt væri. Ekki vegna þess að ég sé svo á móti því að hafa karla eða konur í stjórn í einhverjum hlutföllum heldur vegna þess að ég tel að stjórnmálamönnum komi það bara akkúrat ekkert við hverja ég myndi velja til að stjórna því fyrirtæki sem ég hefði sett mína peninga í. Að loka fyrirtækjum sem hafa ekki að 40% af öðru hverju kyninu í stjórn. Þvílík vitleysa.
Nýlega var haldin hérlendis ráðstefna þess efnis að sannfæra þjóðina um að það væri góður business að hafa konur í stjórn fyrirtækja. Gott og vel, það má vel vera að svo sé, ekki ætla ég að andmæla því. En þá spyr ég hvers vegna eru allir þessir góðu businessmenn sem græða á tá og fingri og stjórna fyrirtækjum hérlendis ekki búnir að koma auga á þennan góða business? Eru þeir kannski ekkert sérstaklega góðir businessmenn? Hvað veit ég? Þarna er eitthvað sem gengur ekki upp. Ráðherra breytir þessu ekki með því að senda út einhverjar bréfsnuddur. Þeir einu sem breyta þessu, ef það er svo mikilvægt, eru konur sjálfar með því að berjast til áhrifa og leggja í slaginn. Það er hins vegar erfið leið og vafalaust miklu auðveldara að reyna að berja í gegn einhverja vitlausa lagasetningu og fá þetta fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. Ég er á móti kynjakvótum hvar sem þeir eru og vil fá hæfustu einstaklingana á oddinn hvar sem valið er milli einstaklinga. Ef það er álit einhverra að það hafi í för með sér að það rýri hlut kvenna frekar en karla þá get ég ekki gert að því að einhverjir séu haldnir slíkri vanmetakennd. Hún er ástæðulaus að mínu mati.
laugardagur, september 24, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli