Nú tók ég þokkalegan túr í eftirmiðdaginn þegar ég kom heim úr vinnunni. Þegar stjórn FM er búin að færa haustmaraþonið aftur á sinn fyrri stað er engin undankoma með að koma sér í sæmilegt from. Ég held að það eigi að ganga þokkalega, helst að það taki smátíma að ná kílóunum burt sem hafa bæst við í sumar en það tekst. Mætti Pétri Franssyni við miðasöluskúrabeygjuna við Laugardagsvöllinn með stóran hóp á eftir sér. Þar er haldið vel á málum sem mun skila fínni uppskeru. Flott að sjá hópana sem ætla að fara í víking á komandi vikum. Tugir manna til Berlín eftir tíu daga og síðan nær þrír tugir til New York þegar líður á haustið. Ég náði að tryggja mér sæti til London næsta vor. Mig langar að taka þátt í þessum stóru borgarhlaupum þar sem tugir þúsunda eru að hlaupa, svona upp á upplifunina. Ein borg á ári er ágætt meðan maður getur eitthvað. Það er sem betur fer ekki svo dýrt að skreppaq til næstu landa að þetta er verjanlegt upp á heimilisbókhaldið. Svo verður maður að eyða reykingapeningunum sem maður hlýtur að eiga inni einhversstaðar eftir 22 ára tóbaksleysi. Tvö hundruð þúsund á ári sinnum 22 gera 4,4 milljónir (eftir skatt).
Ég pantaði mér á netinu hlaupasokka með távettlingum (ef einhver skilur það sem ég er að segja) . Sérstakir fingur fyrir hverja tá. Litlu tærnar hafa stundum pirrað mig svolítið því þær liggja fullnærri nágrönnum sínum. Líklega afleiðing þess að maður gekk í of þröngum skóm einhvern tíma í fyrndinni. Ein og ein nögl hefur hrokkið af á stundum en hvað með það. Monica Sholz sagðist alltaf hlaupa í svona sokkum og aldrei fá blöðrur þegar ég spurði hana um ástand fótanna í hennar svakalega prógrammi árið 2001. Ég notaði þá í fyrsta sinn í dag og líkaði vel.
Það hefur verið svolítið af fréttum að vestan upp á síðkastið. Fyrst er til að taka að sveitarstjórnarmenn á aðalfundi Fjórðungssambandsins settu þingmönnum þær reglur að þeir legðu ekki undir sig allann þann tíma sem ætlaður var til umræðna. Þar sem ég hef setið hliðstæða fundi hafa þingmenn verið í hlutverki áheyrenda og gesta. Fyrsti þingmaður kjördæmisins hefur borið þingheimi kveðju þeirra en annars hafa þeir ekki látið mikið á sér bera nema sérstök ástæða væri til. Í fyrra fyrir vestan fór þetta allt úr böndunum hjá þingmönnum kjördæmisins og þingið sem átti að vera umræðuvettvangur sveitarstjórnarmanna um sín mikilvægustu mál breyttist í eldhúsdag þingmanna þar sem þeir rifust innbyrðis með mörgum og löngum ræðum. Heimamenn voru mjög fúlir eftir þingið í fyrra og töldu tryggara að tilkynna það í upphafi fundarins í ár hvaða hlutverk þingmönnum væri ætlað á þinginu eftir að allt stefndi í sömu vitleysuna og á síðasta ári. Þetta þótti þingmönnum misgaman. Mér finnst þetta töff hjá heimamönnum þar vestra. Það hlustar nefnilega enginn á þann sem stjakar aldrei frá sér.
Síðan er nú nýlega komin upp umræða um bílakirkjugarðinn í Ögri inni í Djúpi. Maður sér þennan mikla flota af bílhræjum þegar maður keyrir hjá og ég skil vel að nágrönnunum þyki þetta leið sjón dag út og dag inn. Fréttamaður sjónvarpsins fyrir vestan tók dálítið skrítinn pól í hæðina þegar hann fór að tala um þetta mál þegar hann sagði að þarna gætu menn heimsótt gamla bílinn eins og menn gera við leiði ættingja eða vina í kirkjugörðum. Þetta sjónarhorn er nú dálítið fyrir ofan minn skilning. Ég hef ekki heyrt um að fólk sé að leggja blómvönd á gamalt bílhræ sem maður átti kannski endur fyrir löngu. Það er lítið gaman að sjá ónýta ryðhrúgu sem einu sinni var góður vagn. Verndun og viðhald fornbíla er góðra gjalda verð en söfnunarárátta er allt annar hlutur. Hún getur birst í bílhræjum eins og öðru.
miðvikudagur, september 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli