Ég hef stundum verið að segja skoðanir mínar á málflutningi femista hér á síðunni. Ég er mjög oft ósammála þeirra málflutningi eins og ég er ósammála öfgum hvar sem þeir birtast. Kvennalistinn var vafalaust þarflegur á sínum tíma og gerði sitt gagn á ýmsan hátt. Vegferð hans endaði tiltölulega fljótt í blindgötu því málflutningurinn gekk ekki upp. Það er að mínu mati ekki hægt að sjá einhverja kvennafleti og karlafleti í hverju máli sem fjallað er um á Alþingi. Fólk sá tiltölulega fljótt að þessi svokallaða sýn kvenna á málin voru ekki annað en nýju fötin keisarans í breyttri mynd frá frumútgáfu. Því var síðasti landsfundur kvennalistans ansi fámennur sem eðlilegt var.
Ég minnist á þetta því ég sé af og til umræðu í sænsku blöðunum um kvennalistann sænska. Guðrun Schyman, sem var formaður sænska kommúnistaflokksins (Socialistiskt venstre parti) gekk úr flokknum sl. vetur og stofnaði kvennalista (Feminiskt initiativ) eða feminiskt frumkvæði. Guðrún er að mörgu leyti vafalaust magnaður stjónmálamaður en vegna ýmissa persónulegra uppákoma hefur vegur hennar heldur farið minnkandi á seinni tímum. Í upphafi var gerður góður rómur að flokknum og hann mældist með yfir 15% í skoðanakönnunum. Nú berast hins vegar fréttir af átökum og upplausn innan flokksins. Venjulegar konur sem héldu í einlægni að þær gætu unnið að almennum hagsmunamálum kvenna innan flokksins segja sig grátandi úr honum eftir að hafa fengið yfirhalningar af harðlínuliðinu. "Meðalmennskukerlingarnúlla" eru einkunnir sem einstaka konur hafa fengið af þeim kynsystrum sínum sem aðhyllast feminiska harðlínustefnu samkvæmt umfjöllun sænsku blaðanna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig FI þróast í Svíþjóð en eins og stendur stefnir allt í að þar sé að mótast lítill harðlínuflokkur sem verður í besta falli áhrifalaus á þingi.
Ég er á þeirri skoðun að í stjórnmálum eigi að velja hæfustu einstaklingana hverju sinni. Okkar kerfi í kosningum gerir almennum kjósendum erfitt fyrir að hafa áhrif á uppröðun á lista nema í almennu prófkjöri. Uppröðun uppstillingarnefnda með fléttulistum, kynjakvótum og og öðru sem gerir möguleika almennra kjósenda til að hafa áhrif á endanlega uppröðun mjög litla er hins vegar verri valkostur að mínu mati. Það á einfaldlega að halda opin prófkjör til að stilla upp á lista sem flokkarnir bjóða fram lista til sveitarstjórna og þings á meðan almenningur hefur enga möguleika að hafa áhrif á röðunina með útstrikunum. Mér er svo nákvæmlega sama hvort út úr prófkjörum kemur að allir efstu menn lista eru karlar eða konur, ungir eða gamlir, hvítir eða svartir ef að niðurstaðan er vilji fólksins. Menn fá alltaf þá niðurstöðu í lýðræðislegum kosningum sem þeir eiga skilið.
Ég er nokkuð hrifinn af finnska kerfinu. Þar kjósa menn einn einstakling til sveitarstjórnar eða þings, þannig að kosningin er einnig vinsældakosning milli einstaklinga. Forseti bæjarstjórnar sveitarfélagsins Sippo var hörkudugleg bóndakona sem var kosin til áhrifa í sínu sveitarfélagi eftir þessu fyrirkomulagi. Hún þurfti hvorki fléttulista, kynjakvóta eða önnur trix til að öðlast stuðning sveitunga sinna heldur einungis eigin verðleika. Við hvað eru menn hræddir?
Ég er hrifinn af nýju hlaupasokkunum. Hlakka til að prufa þá í löngum hlaupun því ég held að þeir hafi marga góða kosti en ég sé enga galla. Þeir heita Injinji. Sá á netinu að Þórður okkar SIgurvinsson hafði framkvæmt það sem ýmsir hafa verið að tala um að hlaupa frá Landmannalaugum í Skóga. Flott hjá honum. Það stendur ekkert fyrir Þórði eins og menn hafa séð gegnum árin. Það er hins vegar ljóst að það er mjög erfitt að lengja Laugaveginn formlega yfir Fimmvörðuhálsinn nema með umfangsmiklum aðgerðum og öryggisráðstöfunum. Flytja yrði drykkjarstöðvar og hjúkrunarfólk upp á Fimmvörðuháls og hjálparsveitafólk yrði að vera til taks til að gæta nauðsynlegra varúðarráðstafana. Líklega yrði einnig að vera skylda að hafa meðhlaupara frá Þórsmörk þegar fólk er orðið örþreytt. Það væri hins vegar gaman að takast á við þessa leið við tækifæri en það bíður síns tíma.
Þingstaðahlaupið verður 8. október skv. auglýsingu frá forseta 100 km. félagsins. Sjá nánar síðar um tímasetningar og upphafspunkt. Allir eru velkomnir og er þess vænst að sjá sem flesta. Tempóið er svona 6 km/klst. Markmið hlaupsins er góður andi á leiðinni og að komast alla leið. Einnig er hægt að hlaupa hluta hlaupsins ef það hentar betur.
föstudagur, september 16, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli