Las í gær frásögn Alfreðs frá Jungfrau maraþoninu í Sviss. Glæsilegt hjá honum að klára það á góðum tíma og í góðu sæti. En mest hrifinn var ég af að heyra af æfingaaðferðum hans. Að ná upp svona góðu þoli með sundlaugargöngu mánuðum saman finnst mér frábært og ná samtímis að vinna úr sér vond meiðsli. þetta kennir manni meðal annars að ef veður er djöfullegt yfir svartasta veturinn þá er hægt að byggja upp þol í sundlauginni. Það er nefnilega alveg hræðilega leiðinlegt að hlaupa á reim. Skyldu fæturnir ekkert vera svagir að vera hent beint í maraþonið eftir að hafa svamlað í sundlauginni langtímum saman. Maður hugsar t.d. um siggið og annað sem safnast upp með tímanum og byggir upp hörku á fótunum. Kannski hefur það skipt máli að þetta var utanvegahlaup að miklu leyti.
Fékk ÚTIVERU í dag. Þetta er eitt af þeim blöðum sem maður svelgir í sig og er lengi að því. Fínt blað. Sá meðal annars frásögnina af göngunni um Tröllaskagann. Þorsteinn var 38 klst á leiðinni. Hann sagðist hafa hlaðið með pastaáti dagana fyrir gönguna. Að mínu mati er það kolröng aðferð. Fyrir svona ferðalag á að borða prótein og ekkert annað en prótein. Kjöt, fisk, skyr og egg og svo hringinn aftur. Kolvetnið brennur upp eins og blaðastafli, brennur hratt og gefur snarpa en stutta orku. Próteinið er eins og timbur, brennur lengi og gefur mikla orku. Eftir að hafa lesið ráðleggingar löbarlarssons um að forðast kolvetnin fyrir ultralöng hlaup þá borðaði ég eins og ég gat af staðgóðum mat fram á síðasta kvöld fyrir Western States í vor. Einu mistökin sem ég gerði var að taka dollu af Carbo Lode. Það bara tjúnaði mann upp en skipti engu máli varðandi úthaldið. Átökin byrja ekki fyrr en eftir 12 - 16 tíma fyrir venjulegt fólk og þá er allt kolvetni fyrir löngu rokið út í veður og vind en próteinið er enn að gefa orku. Fyrir svona langa göngu þarf mikið og staðgott nesti. Á hinn bóginn getur verið gott að hafa orkuduft með til að setja út í drykkina. Það frískar og skerpir.
Þrír listamenn voru í kastljósinu í kvöld. Tveir voru mjög ánægðir með fyrirhugað tónlistarhús og fannst 12 milljarðar ekki vera svo mikill peningur að það tæki því að minnast á þá einu sinni. Frambjóðandinn sagði hinsvegar að þetta væru miklir peningar, ekki mætti gleyma því. Slæmt að fulltrúi skattgreiðenda skuli ekki vera með í þessum þætti. Vísa áhugasömum á heimasíðuna www.andriki.is til að sjá skemmtilega umfjöllun um þessa ráðstöfun skattanna okkar.
Fréttamaður í ríkisútvarpinu stóð undir áliti mínu á þeim í gær. Hann var að segja frá fámennum fundi mótmælenda við ráðhúsið. Eitthvað var frásögnin bragðlaus því ansi fáir voru að mótmæla. Fréttamaðurinn tók þá til þess bragðs að fara að lesa upp af skiltum mótmælenda. Það hef ég aldrei heyrt áður og á vonandi aldrei eftir að heyra aftur í ríkisútvarpinu. Hvað skyldi koma næst?
Furðulegar fréttir berast af KSÍ. Nú hefur KSÍ farið fram á að útsendingar af ensku leikjunum verði truflaðar á morgun á meðan bikarúrslitaleikurinn milli Vals og Fram stendur yfir. Hvað heldur Eggert að hann sé? Einhver Kim IL Sung? Ef einhver vill gera eitthvað annað en að fara og horfa á Val og Fram spila fótbolta þá náttúrulega gerir hann það og spyr Eggert ekki um leyfi. Hvað með fólkið utan Reykjavíkur sem er utan áhrifasvæðis KSÍ? Þetta er með því vitlausara ssem maður hefur heyrt. Ef Víkingur væri að spila bikarúrslitaleik þá náttúrulega færi maður á völlinn hvernig sem allt veltist og skipti ekki máli þótt Man. Udt. tæki á móti Chelsesa á Old Trafford á sama tíma. Maður myndi bara taka leikinn upp. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir að sjá þá rauðu og bláu spila á morgun. Vona bara að Valur vinni.
Fór Eiðistorgshringinn í dag sem er 21 km. Góður hringur í dálítilli norðan átt en ekki til trafala. Fékk tölvupóst í gær frá Eiolf Eivindssen, öðrum norðmanninum sem keppti í WS í vor. Hann er að fara til Grikklands að keppa í Spartathlon um næstu helgi. Hann er dálítið áhyggjufullur yfir að meiðsli hafa komið í veg fyrir að hann gæti æft eins og hann vildi. Eiolf er mikill jaxl sem kemst vonandi á leiðarenda.
Er að hlusta á Evert Taube meðan ég er að skrifa þetta. Upptökurnar eru frá árunum 1930 - 1950. Ég keypti þriggja diska kassa í Stokkhólmi um daginn á 800 kall (ÍKR). Kallinn hefur verið alveg stórkostlegur og er það enn. Hvert lagið öðru betra, valsar og tangóar og textarnir um sjómennsku og kvennafar, sérstaklega þó kvennafar. Þvílíkt eyrnakonfekt.
föstudagur, september 23, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli