Tók Elliðaárdalshringinn í gærkvöldi og Hattinn að auki. Léttur í spori að mér fannst. Maður þarf að fara að snúa sér í gang fyrir Þingstaðahlaupið og haustmaraþonið. Mér likar alltaf betur og betur við táslusokkana sem ég keypti um daginn. Það verður gaman að prufa þá í almennilegu hlaupi.
Sá stutt viðtal við nýkjörinn formann LFK í Fréttablaðinu í gær. Framsóknarkonur héldu landsþing á Ísafirði um síðustu helgi. Formaðurinn var spurður hvað hefði risið hæst í umræðunni á þinginu. Formaðurinn sagði það vera kröfuna um fléttulista. Þa var mér öllum lokið. Rís umræðan á svona þingi ekki hærra en að krefjast þess að það séu notuð einhver trix til að raða á framboðslista í stað þess að láta almenning (flokksmenn) koma að því verki. Ég hefði tekið alla mína hatta ofan fyrir þeim ef ég hefði séð ályktanir um nauðsyn þess að efla starf stjórnmálaskóla innan flokksins, námskeiða í ræðumennsku og félagsstörfum og fundarsköpum til að byggja einstaklingana upp og gera þá hæfari til að takast á við ábyrgð í sveitarstjórnum eða á landsvísu. Þannig byggja menn meðal annars upp fylgi flokksins , gera starfið skemmtilegt og efla sjálfstraust einstaklingnanna. Fléttulistar, godbevares. Ungir hafa einnig sett fram körfuna um fléttulista, það virðist vera sama vanmetakenndin þar.
Þar sem ég eldist með hverju árinu sem líður fer ég að hugsa um hag eldri borgara. Þeir eru ekki ánægðir með stöðu sína. Þarf ekki að tryggja þeim ákveðinn sess á framboðslistum með fléttulistum. Hvað með öryrkja? Ekki er þeir alfarið ánægðir. Fléttulistasæti skal það vera. Þannig má áfram telja. Er eitthvað vit í þessu? Ég sé það ekki.
Nú stendur yfir samgönguvika í Reykjavík og eitt af markmiðum hennar er að draga fram kosti annarra samgöngutækja en einkabílsins. Nú veit ég ekki hvort gatnamálastjóri hafi fengið einhverjar instrúxsjónir um að tefja för bílsins en allavega var vinnufélagi minn ekki fallegur í framan þegar hann kom í vinnuna í gærmorgun. Hann kemur í vinnuna ofan úr Grafavogi og tekur leiðina framhjá Ingvari Helgasyni við Ártúnsbrekkuna. Þegar hann kom fram hjá strætóstöðunni á Ártúnshöfðanum náði bílröðin niður óslitið eins langt og augað eygði. Hann sat síðan í henni milli hálftíma og klukkutíma og þokaðist mjög hægt áfram. Loks kom ástæðan í ljós. Starfsmenn gatnamálastjóra voru í holufyllingum við Miklagarð (Bonus og IKEA) og höfðu þrengt götuna á mesta umferðartíma dagsins eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í röðinni notaði hann tímann til að reikna út tap samfélagsins vegna þessarar tafar. Það var nokkuð há tala. Erlendis sér maður oft að það er unnið að svona gatnaviðgerðum á mestu umferðaræðunum á nóttunni. Þa ætti alla vega að vera hægt að byrja eftir kl. 9.00 þegar mesti þunginn er farinn hjá.
fimmtudagur, september 22, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli