Ekkert hlaupið í kvöld. Horfði þess í stað á b. lið 4. flokks Víkings kvk spila við Fjölni í haustmótinu. María er að feta sín fyrstu skref í 4. flokki og þau eru ekki slæm. Hún skoraði nokkur mörk í leiknum, þar af eitt svo flott að jafnvel Fjölnisáhorfendur klöppuðu.
Félagi Kristinn í San Francisco sendi mér tölvupóst í gær þar sem hann var að spjalla um mataræði í endurance hlaupum. Hann var sammála því að maður ætti að borða prótein frekar en kolvetni fyrir löng ultrahlaup. Hann hitti Dean Karnazes rétt fyrir WS í vor og fékk bókina hans "Ultramaraton man" áritaða fyrir mig. Dean er einn mesti ultrahlaupari í heimi, hefur sigrað Bad Water, hlaupið maraþon á Suðurheimskautinu og fleira í þeim dúr. Hann ætlaði síðast það ég vissi að hlaupa maraþon á flothring á San Franciscoflóa. Dean segist borða mikið af laxi, soðnum og grilluðum fyrir mikil átök, próteinríkt grænmeti eins og spínat og broccoli og "slow carbo" eins og epli og banana.
Umboðsmaður Alþingis sendi ósk stjórnarandstöðunnar um rannsókn á hæfi forsætisráðherra í einkavæðingu Búnaðarbankans til föðurhúsanna í dag. Þannig voru allar dylgjur og hálfkveðnar vísur sem sungnar hafa verið fjöllunum hærra í fjölmiðlum í sumar kveðnar í kútinn. Umboðsmaður sendi forsætisráðuneytinu samtímis almennar spurningar um framkvæmd einkavæðingarinnar. Eftirtektarvert var að í ríkisútvarpinu og í ríkissjónvarpinu var það fyrsta frétt að umboðsmaðurinn hefði óskað eftir þessum upplýsingum en síðan kom hitt eins og í forbifarten að ásakanir stjórnarandstöðunnar um vanhæfi hefði verið blásið út af borðinu.
Ágæt umræða var í speglinum í dag eftir fréttir þar sem rætt var um þá niðurstöðu að öll þessi jippo um jafnrétti kynjanna í formi auglýsingaherferða og annara misgáfulegra aðgerða væri í raun og veru gagnslausar aðgerðir. Það eina sem skiptir máli er að efla einstaklingna sjálfa. Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart. Ég hef ekki lengi heyrt eins absúrd auglýsingaherferð eins og þá sem VR lætur dynja á landslýð í sjónvarpinu þessa dagana. Tekur einhver mark á þessu?
miðvikudagur, september 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli