Kom frá Finnlandi í eftir góða ferð. Á hótelinu gat maður horft mikið á BBC og CNN og fylgst með því sem var að gerast á flóðasvæðinu í New Orelans. Maður getur ekki annað en undrast hve vanbúin stjórnvöld í Bandaríkjunum voru við afleiðingum Katrínar sem voru þó fyrirsjáanleg a.m.k. að hluta til þegar horft var á bílalestrinar úr borginni í aðdraganda fellibylsins. Skipulagsleysi og forystuleysi vistist vera allsráðandi. Enn eru lík fljótandi í vatninu á götum borgarinnar. Afleiðingar fellibylsins eru svo óskaplegar að maður getur ekki gert sér þetta í hugarlund.
Ég heyrði áðan í útvarpinu rætt um umfjöllun í Veckans affarer i Svíþjóð þar sem var dreginn í efa fjárhagslegur styrkur íslenskra fyrirtækja sem hafa verið að gera sig gildandi í Svíþjóð. Framkvæmdastjóri Verslunarráðs vildi ekki gera mikið úr áhrifum þessarar fréttar. Menn eiga ekki að gera lítið úr svona umfjöllun. Enda þótt það sé svo sem ekki mikið að marka þá hitti ég blaðamann frá Ísrael á turnbarnum í Helsinki. Hann sagðist hafa verið að spekulera í að koma til Íslands í fyrra en hætt við það eftir að hafa lesið geðvonskulega grein í ensku blaði um túrismann á Íslandi. Ég man eftir umfjöllun um þessa grein og m.a. að sendiráðið í London hafi gengið í málið og reynt að koma leiðréttingum á framfæri. Það er ljóst að það er erfitt að bæta fyrir slæma umfjöllun.
Ég keypti mér bók um hlaup í Helsinki. Hún heitir "Lore of Running" og er eftir Tim Noakes. Þetta er heilmikill doðrantur upp á 1000 bls. Það sem mér finnst þessi bók taka mörgum öðrum fram er að í henni er sérstakur kafli um Ultrarunning. Það er nefnilega svo að í fæstum þeim bókum sem ég hef keypt um hlaup og hlaupaþjálfun er minnst að einhverju ráði á ultrahlaup. Mér finnst það vera stór hluti af undirbúningi undir átök sem eru manni framandi að lesa sér til um reynslu annarra, mistök og upplifanir. Það er í þessu eins og í öðru að maður á að forðast að gera mistök sem hægt er að sleppa við með því að læra af öðrum.
Fréttamatið í sjónvarpinu er stundum alveg með ólíkindum. Nú er það reyndar Stöð 2 svo ég er ekki pirraður yfir því að þurfa að borga ruglið en ég var að horfa á fréttirnar áðan. Þar var viðtal við leigubílstjóra sem keyrir um á Porce. OK hann má það ef hann vill. Fréttamaður byrjaði á því að fullyrða að eini Porce leigubíllinn í heiminum væri á Íslandi. Hvernig veit hann það? Hákot er stórt orð. Svo var spjallað við bílstjórann og allt æí lagi með það. Manni datt fyrst og fremst í hug að leigubílstjórinn hefði keypt sér frétt og leyft fréttamanninum að taka í til að auglýsa sig. Allt í lagi með það í sjálfu sér. Þetta er einkarekin stöð. Fréttamaðurinn endaði fréttina á því að segja að leigubílstjórinn væri á einum dýrasta leigubíl í heiminum. Hvernig veit hann það? Þegar fjölskyldan var í Bandaríkjunum í sumar var pantaður leigubíll fyrir 8 manns. Þau bjuggust við að fá rúgbrauð eins og hefði komið hér. Það lengdist aðeins á krökkunum andlitið þegar alvöru löng limosína birtist og sótti hópinn. Þetta var limmi með svörtum gluggum, sjónvarpi, bar og öllu sem maður sér í bíómyndum. Mér þætti gaman að vita hvað svona bíll myndi kosta hérlendis. Í ljósi þessa finnst mér yfirdrifin hrifning fréttamannsins yfir því að keyra í einhverjum Porce bíl vera ósköp barnaleg.
föstudagur, september 09, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli