Nokkur umræða hefur skapast um aðildarumsókn Íslands að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að undanförnu. Þetta er búið að vera mörg ár í deiglunni en nú fer að styttast í alvöruna. Reyndar eru hlutirnir ekki eins einfaldir og ætlað var því Tyrkir eru einnig búnir að gefa sig fram utan Íslands og Austurríkis. Mér finnst dálítið merkilegt að það hefur ekkert verið rætt um neitt í sambandi við þessa aðildarumsókn nema það sem varðar peningamálin. Þetta kostar nefnilega alveg djöfuldóm, bæði undirbúningurinn og eins setan í ráðinu ef af verður. Mér þykir kominn tími á að stjórnvöld leggi fram markmið sín með aðildarumsókninni. Til hvers er af stað farið? Er Ísland að ganga fram fyrir skjöldu til að gæta hagsmuna lítilla örþjóða? Er eitthvað sem Ísland hefur sérþekkingu á sem verður auðveldara að skýra út og ræða eftir að Ísland er orðinn aðili að ráðinu. Ég spyr vafalaust einfeldningslega en það er vegna þess að ég hef ekki heyrt neina efnislega umræðu um málið. Gagnslaus aðild er of dýr enda þótt krónurnar séu kannsi ekki margar en aðild er ekki endilega dýr ef gagnið er mikið. Ég vona að þessi umræða sé ekki runnið undan rifjum framagosa í utanríkisþjónustunni sem langar að fá að spila í meistaradeildinni í ár eða tvö áður en þeir fara á eftirlaun. Ég las nefnilega einu sinni bókina "Sendiherrafrú segir frá" og þar var margt forvitnilegt að sjá.
Víkingur komst upp í úrvaldsdeildina í kvöld. Liðið vann Völsung frá Húsavík 2-0 og felldi þá þar með niður í 2. deild. Þetta eru gleðileg tíðindi fyrir alla Víkinga því vitaskuld á Víkingur að vera úrvaldsdeildarklúbbur. Liðið féll í fyrra á afar pirrandi hátt og því var sterkt að koma til baka og vinna sig upp strax aftur. Andinn í Víkinni hefur breyst verulega síðustu árin. Sigurður er keppnismaður og vill bara sigur. Hann hefur síðan hæfileika til að efla strákana sem knattspyrnumenn þanig að efnilegir strákar sem vantar síðustu smurninguna til að springa út sækja í að spila undir hans stjórn. Stuðningsmannafélagið Berserkir hefur lyft grettistaki til að efla liðsandann í Víkinni. Nú er Víkin alvöru heimavöllur og hópurinn hefur hertekið hvern útivöllinn á fætur öðrum í sumar og látið þá hljóma sem heimavöll. Nú er bara að byrja strax að vinna skipulega fyrir næsta sumar.
Hitti í kvöld félaga minn, 52 ára gamlan. Hann byrjaði að skokka í sumar og tók þátt í RM um daginn og hljóp þá 10 km í fyrsta sinn á 47 mín. Það er fínn tími af byrjenda. Hann er búinn að setja stýrishjólið fast, hálft skal það vera á næsta ári og síðan heilt eftir tvö ár. Svona eiga stýrimenn að vera.
Stóð fyrir aftan mann á bensínstöð í dag. Hann keypti sér pakka af sígarettum. Pakkinn kostaði 546 krónur. Miðað við að reykja pakka á dag kaupir þessi maður tóbak fyrir 16.380 krónur á mánuði. Í gær sá ég auglýst 40 tommu plasmasjónvarp. Það kostar 230 þúsund krónur en einnig var hægt að fá það á 16 mánuða afborgunum. Mánaðarleg afborgun var 14.900 krónur. Kannski maður byrji að reykja, hætti samstundis og leggi síðan pengingana sem sparast á því að hætta í afborganir á 40 tommu plasmasjónvarpi. Umhugsunarvert.
Fer vestur á Rauðasand í fyrramálið að setja gólfið í húsið heima með Jóni Sigmari. Kem vonandi til baka á mánudagskvöld.
föstudagur, september 16, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli