Sit hérna úti í Helsingfors eftir að hafa sótt fjármálaráðstefnuna í morgun og fram eftir degi. Finnum er sameining sveitarfélaga hugleikin en ríkisstjórnin hefur gefið upp reykmerki um að sveitarfélögin verði sameinuð verulega innan fárra missera. Í maí byrjun á næsta ári eiga helstu línur að liggja fyrir. Eðlilega er fólk á varðbergi, samskipti milli ríkis og sveitarfélaga hér eru ekki góð og margir óánægðir með stöðuna. Þingmenn á finnska þinginu raða sér í áhrifastöður innan sambands sveitarfélaga og gæta hagsmuna ríkisins á þann veg. Það ætti að banna þingmönnum að sitja í sveitarstjórnum eins og gert er víða t.d. í Noregi. Það koma svo oft upp hreinir hagsmunaárekstrar milli ríkis og sveitarfélaga og þegar mann sitja beggja megin borðs þá vega hagsmunir ríkisins alltaf þyngra ef velja þarf á milli. Það er einnig athyglisvert í norsku sveitarstjórnarlögunum að þar er mönnum bannað að sitja hjá. Menn eru kosnir til áhrifa til að taka afstöðu, með eða móti. Hjásetja er bæði hreinn aumingjaskapur og einnig leið til að geta leikið tveim skjöldum og átt útgönguleið ef umræðan þróast á annan hátt en menn halda í upphafi. Margir þykjast sína mikla stjórnkænsku og djúpa visku með hjásetu. Í mínum huga er hjásetja dæmi um hið þveröfuga.
Við fórum í gær í heimsókn í sveitarfélagið Sippo sem er nágrannasveitarfélag Helsingfors. Við þekkjum forseta bæjarstjórnar sem hefur komið tvisvar heim til Íslands. Það er dugnaðarlegur bóndi (kona). Það var tekið á móti okkur eins og höfðingjum og allt gert til að dagurinn nýttist sem best. Við heimsóttum m.a. nýbyggðan skóla sem á að vígja seinna í mánuðinum. Það er gjarna vitnað til góðs námsárangurs í finnskum skólum og kennarasamtökin hafa á orði að það eigi að sækja fyrirmyndir til Finna hvað varðar menntun kennara. Mér sýnist að það sé hægt að leita til þeirra með fleira. Ég spurði kennara sem við hittum um fyrirkomulag frímínútna. Hjá þeim er kennt í 45 mínútur og síðan eru 15 mínútna frímínútur þar sem allir fara út. Einu tilvikin þar sem kenndar eru tvær kennslustundir án frímínútna er þegar verið er að kenna smíði, leikfimi eða tónstundaiðju. Ég spurðist fyrir um þetta að gefnu tilefni. Ég var nýlega að skoða stunda töflu Maríu. Þar er grundvallarregla að það er alltaf kennt í tvær kennslustundir samfleytt. Það eru bara einar 20. mín. frímínútur frá kl.8.20 fram til kl. 12.00. Síðan er tvo daga vikunnar kennt í fjórar kennslustundir samfleytt án frímínútna og það eru bókleg fög (íslenska, enska, danska o.s.frv). Ég er ekki par ánægður með þetta og sendi nýlega bréf til foreldraráðs Breiðagerðisskóla með nokkrum spurningum sem eg óskaði svara við. Kennararnir segja að það sé svo erfitt að koma krökkunum út í frímínútur að það verði að slá saman kennslustundum. Médr sýnist stundaskráin vera þannig úr garði gerð að það sé reynt að ljúka skólanum eins snemma og lifandi mögulega er hægt. Það er alltaf verið að taka um að krakkarnir séu órólegir í tímum. Er það furða? Maður væri líklega farinn að missa athyglina eftir fjögurra kennslustunda setu án frímínútna, hvað þá litlir krakkar.
Ég sá í fréttum að dómarinn í stóra Baugsmálinu hefur áhyggjur af því að málið sé ekki rétt reifað. Það er svakalegt ef það reynist rétt. Ef embættismenn geta ekki unnið heimavinnuna almennilega og sett málið þannig fram að það sé dómtækt, þá er eitthvað að. Þá er betur heima setið en af stað farið, burtséð frá sekt eða sýknu.
Ég styð Gísla aðalritara í því að næsta ár verði dagsetning haustmaraþonsins ákveðin í ársbyrjun og henni ekki breytt hvernig sem allt veltist. Menn verða einfaldlega að velja og hafna en við megum ekki missa haustþonið.
Sveinn minn varð tvítugur í gær. Hamingjuóskir eru sendar héðan frá Finnlandi. Maður sér það fyrst og fremst á krökkunum hvað tíminn líður hratt. Manni finnst maður ekki eldast neitt en það getur varla verið þagar maður sér hvað aðrir breytast. Á helginni er fyrirhugað að hann fagni tímamótunum með félögum sínum. Þá verður gamla settið að finna sér eitthvað til dægrrastyttingar á meðan.
miðvikudagur, september 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli