sunnudagur, júní 29, 2008

Fór frekar seint út í morgun. Hélt vestur eftir en sneri við á Eiðistorginu. Þar var orðið kalt og hvasst og ég nennti ekki að berjast fyrir golfvöllinn í tætingnum. Á leiðinni til baka hitti ég slitur af Hlaupasamtökum lýðveldisins sem var að hlaupa í sig heilsu og þrótt. Félagar í samtökunum höfðu fagnað fimmtíu ára afmæli ritara samtakanna kvöldið áður með virkri þátttöku í afmælishaldinu. Veisluhaldsins sást merki hjá þeim sem mættu til hlaupa. Þeir sögðu illgjarnar sögur og Jörundur sleit upp lúpínu. Afmælisbarnið sást hins vegar hvergi, af augljósum ástæðum sögðu félagar hans og gestir kvöldið áður.

Ég fór nokkra hringi í Elliðaárdalnum til að ná magni dagsins. Þar er alltaf logn.

Granollersmótinu lauk í dag. Víkingar léku síðasta leikinn í milliriðlum í morgunsárið og þurftu að lágmarki að ná jafntefli í þeim leik. Það tókst og þá voru þeir komnir í undanúrslit. Þar léku þeir við lið heimamanna, Granollers. Leikurinn var jafn og lauk með jafntefli en Víkingar voru sterkari í framlengingu. Dómarar leiksins þráðu svo ákaft að sjá sína menn í úrslitum að eftirlitsdómari leiksins þurfti að rifja upp með þeim helstu atriði í dómgæslu í handknattleik áður en framlenging hófst. Í úrslitum mótsins var leikið við Dukla Prag frá Tékklandi. Fyrri hálfleikur var jafn en í seinni hálfleik sýndu Víkingar að þeir voru komnir til leiks og sigruðu af öryggi. Þeir unnu sem sagt í elsta flokki karla á mótinu og er það árangur sem maður er gríðarlega stoltur af. Ég fór með þá á áþekk mót í fyrra og hitteðfyrra. Maður fann hvernig þeim óx ásmegin með aukinni reynslu og fengu aukna trú á eigin getu. Í vor hafa þeir æft vel og samviskusamlega og búið sig undir mótið af fremstu getu. Þegar ég hitti þá á föstudagskvöldið var það síðasta sem ég sagði: "Og svo vinnið þið bara helvítis mótið. Þið vitið að þið getið það." Þetta var nú frekar sagt í bríaríi en af sannfæringu en sama er, ef maður trúir ekki á að maður geti náð settu marki þá kemst maður alveg örugglega ekki á leiðarenda. Ef maður trúir því þá er alltaf von.
Þetta er besti árangur sem hefur náðst hjá handboltaliði frá Víkinni í áraraðir. Granollersmótið er sagt ágætlega sterkt af þeim sem til þekkja svo þetta er alvöru árangur.

Ég ætlaði að skoða stöðuna í Western States í kvöld en þar átti að hlaupa í gær og dag. Þá sá ég mér til mikillar hrellingar að hlaupinu hafði verið aflýst á síðustu stundu eða á föstudaginn. Ástæða þess eru skógareldar sem geysa í nágrenni hlaupaleiðarinnar. Af þeim er bæði mikil loftmengun og einnig er öryggi hlauparanna ekki tryggt. Þetta er í fyrsta sinn í 35 ára sögu hlaupsins að því hefur verið aflýst. Sorglegt. Hugsa sér að ef maður hefði verið kominn til Californíu og upp í fjöllin við Squaw Walley. Síðan hefði allt verið blásið af.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eins og maður var svekktur að komast ekki inn þetta árið þá er maður feginn að hafa ekki verið búinn að kosta miklu til og mættur þarna í dalinn. Hitt er verra að allir þeir sem voru skráðir núna fá sjálfvirkt inngöngu að ári þannig að líkurnar eru nánast engar að komast inn 2009.

Nafnlaus sagði...

Gleymdi að kvitta með nafni

Nafnlaus sagði...

Nú þarf maður bara að skrá sig til þátttöku í haust og halda því síðan áfram til að hafa möguleika á að komast inn eftir tvö til þrjú ár.
Gunnl.