sunnudagur, júní 29, 2008

Var búinn að mæla mér mót með Jóa við brúna um kl. 8.00 í morgun. Varð heldur seinn fyrir én Jói er þolimóður og var búinn að hlaupa dálítið fram og til baka í Fossvoginum þegar ég mætti. Við tókum kúrsinn fyrir Kársnes og suður á við í garranum. Fórum suður að Vífilsstöðum og upp í hálönd Reykjavíkur. Á heimleiðinni fengum við vindinn í fangið en þá jukum við hraðann og lágum undir 4 mín á tímabili í góðum mótvindi. Þetta urðu því bæði brekkuæfingar og hraðaæfingar. Það lágu þó ekki meir en 22 km hjá mér eftir daginn.

Þar sem maður á nóg af flestu þá fer maður sjaldan út í búð nema til að kaupa í matinn og ef bílinn vantar varahlut. Þó fer maður út í búð af hreinni þörf til að kaupa tvennt þegar það birtist. Hið fyrra er diskur með Megasi þegar þeir koma út. Maður frestar því aldrei að kaupa diskinn með meistaranum. Það eru hins vegar mörg ár síðan ég hef keypt disk með Buba. Hitt eru ferðabækur eftir Pál Ásgeir. Hann hefur ritað fjölda bóka um ferðalög og leiðarlýsingar hér innanlands af fágættri smekkvísi og yfirgripsmikilli þekkingu. Hann gjörþekkir landið og söguna og kemur því frá sér í fræðandi og grípandi texta. Í fyrra ók hann með konu sinni vikum saman um byggðir landsins, tók myndir, talaði við fólk og gerði drög að staðháttalýsingu. Afraksturinn er að finna í bókinni 101 Ísland, Áfangastaðir í alfaraleið. Ég gerði mér ferð í Kringluna í dag til að sækja bókina. Það var vel þess virði. Mæli með henni við fólk sem hefur gaman af því að ferðast um landið, skoða áhugaverða staði og fræðast um söguna. Það er margt sem fer fram hjá manni vegna ókunnugleika. Það er gott að hafa þessa bók í handraðanum í slíkum ferðum.

Engin ummæli: