miðvikudagur, júní 11, 2008

Mér er það enn í fersku minni hvílík tímamót það voru í rokkinu og tónlistarlífi hérlendis þegar Ísbjarnarblús kom út á sínum tíma. Maður hafði aldrei heyrt annað eins. Tónninn sem þarna var sleginn var nýr og öðruvísi, brútall og ágengur. Maður beið spenntur eftir hverri nýrri plötu með Bubba Mortens og þeim hljómsveitum sem hann spilaði með hverju sinni. Hver annari betri.

Svo liðu árin. Einhverra hluta fór Bubbi Mortens minnkandi í mínum huga. Hann höfðaði ekki lengur til manns eins og áður. Textarnir skiptu menn ekki máli, músíkin greip mann ekki lengur. Ég hætti að kaupa plötur með Bubba fyrir allmörgum árum. Þá er spurningin hvort það sé ég sem hafi breyst eða er Bubbi einfaldlega farinn að endurtaka sig og hættur að hafa eitthvað nýtt að segja sem höfðar til manns. Megas er aftur á móti að mínu mati alltaf jafn ferskur og heldur sínu striki hvernig sem allt veltist. Ég verð að segja það að mér finnst Bubbi Mortens vera orðinn útbrunnin tónlistamaður sem reynir allt hvað hann getur til að hafa fyrir salti í grautinn með því að kreysta sítrónuna eins og hann getur. Enn koma nokkrir dropar úr henni. Það er í sjálfu sér eðlilegur hlutur því þetta er hans vinna. Það kom slatti af fólki í Laugardalshöllina í haust til að hlusta á hann syngja með lúðrasveit. Mikið skelfilega langaði mig lítið. Það er dæmigert fyrir stöðu hans að hann fór að fullyrða í vetur á bloggsíðunni sinni að hann væri víst góður. Þvílík lágkúra. Slík gæði er ekki hægt að mæla á einhverjum tommustokk hvað þá að menn séu dómarar í eigin málum um hvað er gott eða slæmt í þessu efni. Það er almenningsálitið sem er hinn eini dómari sem mark er takandi á á því sviði.

Bubbi hefur lengi predikað fyrir púritanískri stefnu varðandi texta. Hinn eini sanni tónn í hans augum í því sambandi er að syngja popplög á íslensku. Það má ekki gleyma því í þessu sambandi að Bubbi reyndi fyrir sér með "enska prógrammið" hér um árið en fékk vægast sagt litlar undirtektir enda komu lögin hans hræðilega út á ensku. Vínberin eru súr sagði refurinn þegar hann náði ekki í þau.

Bubbi gaf út í vor lag sem Óðinn Valdimarsson söng af mikilli snilld fyrir mörgum áratugum. Björn Jörundur flutti það með honum en það er varla hægt að tala um söng þegar Björn Jörundur er annars vegar. Að hlusta á hann flytja þennan texta er eins og járnstykki sé dregið eftir ryðgaðri bárujárnsplötu. Bubbi var ekki mikið betri. Þessi hörmung var spiluð eitthvað í útvarpinu en sögur fóru að því að kóngurinn sjálfur sæti örvæntingarfullur við símann og vældi í útvarpsstöðvunum um að spila lagið. Það hlýtur að vera ónotalegt að fá það á tilfinninguna að vera ekki lengur "inn".

Ég hef heyrt eitt lag af plötunni Fjórir naglar. Mér fannst það einfaldlega hræðilegt. Það er ekkert mál fyrir atvinnumenn í faginu að hrista plötur fram úr erminni en það er erfiðara að semja eitthvað sem er öðruvísi og betra en áður hefur verið gert. Mér finnst kóngurinn ekki vera í neinum fötum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvað þú átt við þegar þú talar um eitthvað sem Bubbi sendi inn á heimasíðu sína, hvort það var leiðrétting á því sem kom fram í blaðinu Monitor veit ég ekki en þar var Bubbi a.m.k. að gera allt annað en að segja að hann væri ,,víst" góður.
Annars fannst mér tvíburaplöturnar sem Bubbi gaf út eftir skilnaðinn 2005 mjög góðar og það besta frá honum í áraraðir. Nýja platan er svo líka stórgóð og óskiljanlegt af hverju þetta lag sem þú hefur heyrt var sett fyrst í spilun. Þú gætir gert margt vitlausara en að hlusta á þessa plötu.
Að Megas standi alltaf fyrir sínu er alveg satt en það besta frá Bubba finnst mér þó betra en það besta frá Megasi. Plöturnar Dögun, Nóttin langa, Sögur af landi og Von eru einfaldlega fullkomnar í mínum huga. Megas er að sjálfsögðu eitt mesta skáld síðari tíma á Íslandi en sem tónlistarmaður stendur Bubbi honum framar.