Hvað ætli þessi þróun geti haldið lengi áfram sem hefur verið að gerast síðustu mánuði? Gengi krónunnar fellur og fellur. Fyrir ári síðan var Evran í rúmum 80 krónum. Nú er hún í 135 krónum. Það er nær 60% verðrýrnun. Síðan bætast aðrir hlutir ofan á eins og gríðarleg verðhækkun á olíu. Vaxtastig í landinu er gríðarhátt. Bankarnir eru ófærir um að veita atvinnulífinu eðlilega lánafyrirgreiðslu. Þetta getur ekki leitt til annars en óðaverðbólgu og stórfellds atvinnuleysis ef ekkert breytist. Enda þótt neysla minnki stórlega og þannig dragist fjármagn í umferð gríðarlega saman þá hefur það ekki tilætluð áhrif vegna stöðu krónunnar. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði slíkur samdráttur í fjármagni í umferð átt að hafa í för með sér hraða lækkun verðbólgu en hvað gerist þegar staða krónunnar er eins og hún er. Það er ekki hægt að búast við öðru en þessi gríðarlega veiking krónunnar komi með fullum þunga út í verðlagið. Ég fór út í banka í gærmorgun að kaupa gjaldeyri fyrir strákana í 2. fl. Víkings sem voru að leggja af stað í keppnisferð til Spánar í eftirmiðdaginn. Þá kostaði Evran tæpar 126 krónur. Þegar þeir flugu af stað var Evran komin í 133 krónur. Kaupgeta krónunnar hefur rýrnað svo svakalega að það er orðið mjög dýrt að fara erlendis.
Ég greip niður í Þjóðhagsspá fyrir árið í ár sem gefin var út á sl. hausti af Glitni. Þeir spáðu því að gengisvísitalan væri að jafnaði um 125 á árinu. Nú er hún í ca 168. Þeir spáðu því að USD færi hæst í ca 70 krónur og Evran í 90 krónur um áramótin næstu. Nú er USD 84 krónur og Evran 133. Hvað á maður að halda?
Ég get ekki annað sagt en að maður sé orðinn hálf hræddur um þessa þróun. Bankarnir eru orðnir svo stórir að ríkið getur ekki baktryggt þá. Því er skuldatryggingarálag þeirra svo hátt sem hefur í för með sér gríðarháa vexti og erfitt aðgengi að fjármagni. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er of lítill. Það veikir krónuna. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað þetta getur haldið lengi áfram í þessa átt.
Jói fór til Spánar í gær ásamt félögum sínum hjá Víkingi í keppnisferð til Granollers sem er rétt fyrir utan Barcelona. Þetta er þriðja mótið sem þeir fara á í þessum dúr. Þeim hefur vaxið ásmegin og farnir að skynja betur hvar þeir standa í samanburði við erlenda jafnaldra sína. Í fyrra og núna hef ég séð um að græja allt sem þarf að gera í krngum ferðina, flug, hótel, samskipti við mótshaldara o.s.frv. Ég veit ekki alveg hvað þetta hefur sparað okkur í ár en í fyrra lækkaði það að gera hlutina sjálfur kostnaðinn á strák um ca 35.000 krónur eða um hálfa milljón á hópinn allann. Hálfblanka skólastráka munar um minna. Ég sé ekki ástæðu til að vera að kaupa þessa vinnu af ferðaskrifstofum þegar maður getur sem best gert þetta sjálfur að minnsta kosti jafnvel.
María fer svo í fyrramálið á frjálsíþróttamót til Svíþjóðar með félögum sínum úr Ármanni og Fjölni. Tvíburarnir nágrannar okkar fara einnig þannig að það er mikil tilhlökkun og spenningur í húsinu. Þetta er frumraun þeirra á frjálsíþróttamóti en í fyrra fóru þær á Gothia cup í fótbolta sem var mjög gaman.
Það hlýtur að hafa verið frábært að taka þátt í Miðnæturhlaupinu í glrkvöldi. Veðrið eins og best var á kosið. Ég er að nota kvöldin til að klára að mála húsið þannig að maður verður að forgangsraða af og til. Maður málar aftur á móti ekki snemma á morgnana svo þá get ég hlaupið.
þriðjudagur, júní 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli