sunnudagur, júní 15, 2008

"Hann gat bara beðið" sagði mæt kona á fundinum. Svona hófst grein sem ég las í Mogganum á leiðinni frá Barcelona og birtist á miðsíðu blaðsins á föstudeginum 6. júní. Tilvísunin var í umræður á fjöldafundi kvenna á Bifröst nokkrum dögum áður þar sem meðal annars var fjallað um niðurstöður forkosninga demókrata í Bandaríkjunum. Þátttakendur í fundinum voru greinilega ósáttar við að þeirra fulltrúi, þingmaðurinn og fyrrverandi First Lady í Bandaríkjunum skyldi ekki bera sigur úr bítum en þurfa að sjá á eftri sigrinum í hendur Obama sem var að mestu óþekktur utan síns ríkis fyrir árí síðan eða svo. Viðbrögðin eru ekki þau að sætta sig við orðinn hlut heldur fer umræðan að snúast um að það eigi að taka upp leikreglurnar og breyta þeim þannig að fulltrúi sérstaks hagsmunahóps eigi að vera fulltrúi flokksins. Nú segja menn eitt og annað á fundum en þegar fyrrgreind ummæli eru opnunarsetning á grein sem birtist í miðsíðu Moggans, þá verður maður að gera ráð fyrir að djúpristan sé heldur meiri en eitthvað venjulegt blaður. Nú eru sjálfsagt fáir ef nokkrir frambjóðendur í prófkjöri í Bandaríkjunum sem hafa haft annað eins forskot fyrir það eins og Hillary Clinton. Hún hafði verið í sterkasta sviðsljósinu þar í landi í áraraðir, bæði sem eiginkona forseta, sem eiginkona fyrrverandi forseta, sem þingmaður og ég veit ekki hvað. Enginn frambjóðandi hafði fengið eins sterka og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og eins sterkur halelújakór hafði ekki verið sunginn fyrir neinn annan frambjóðenda. Enda gerðu allir ráð fyrir að hún myndi strauja yfir meðframbjóðendur sína í prófkjöri flokksins og eiga greiða leið í forsetaframboð. Hvað gerðist svo? Þegar hún kom fyrir alvöru fram á sviðið í prófkjörum síðasta vetrar þá gerðist eitthvað. Fólkið vildi annan valkost. Einhver óþekktur Obama og hörundsdökkur í ofanálag átti miklu greiðari leið til fólksins og vann kosningarnar nokkuð örugglega. Hann var sá valkostur við frambjóðenda rebúblikana sem kjósendur demókrata vildu heldur sjá. Að mínu mati eru það miklu miklu stærri tíðindi að þeldökkur maður eigi raunverulegan möguleika á að vera kosinn forseti Bandaríkjanna en að fyrrverandi forsetafrú myndi ná þeirri stöðu. Það vilja hinsvegar fulltrúar harðsvíraðs hagsmúnahóps ekki viðurkenna. Að mati sumra þeirra þá á að breyta leikreglunum og breyta niðurstöðum sem fengnar eru á lýðræðislegan hátt svo þeirra vilji nái fram að ganga. Að mínu mati lýsir það mjög vel þeirri stöðu sem Morgunblaðið var komið í fyrir ritstjóraskipti af grein með svona skoðunum skuli hafa verið sett á miðsíðu blaðsins.

Í sama blaði var frétt sem skýrði frá mótmælum stéttleysingja í Indlandi. Hverju voru þeir aftur að mótmæla, stöðu sinni sem stéttleysingjar? Nei, þeir voru að mótmæla því að þeir fengju jafnstöðu við aðrar stéttir í samfélaginu. Með því að þeir væru komnir með sömu stöðu og aðrir í samfélaginu þá misstu þeir ákveðin forrréttindi sem þeir hafa haft og felast meðal annars í því að þeir hafa forgang í ákveðinn kvóta stöðugilda hjá opinberum stofnunum. Það er erfitt að bæði sleppa og halda í þessum málum.

Engin ummæli: