sunnudagur, júní 08, 2008

Það var orðið þungbúið í morgun þegar við Neil fórum á fætur um kl. 5.30. Það spáði rigningu þegar liði á daginn og það var ekki annað að sjá en að spáin myndi rætast, bara spurning um hve lengi á almáttugi myndi halda í sér. Við vorum komnir inn í Elliðaárdal á sjöunda tímanum. Fyrstu menn voru komnir á staðinn og farnir að gera klárt. Skipulaging við undirbúning hlaupsins hafði mikið hvílt á herðum Ágústar formanns en margar viljugar hendur vinna létt verk. Fólkið dreif að og kl. 7.00 var ræst. Alls hófu 16 keppendur fyrsta 100 km hlaup sem haldið hefur verið hérlendis, 14 íslendingar, Neil sem er breskur og dani að nafni Tommy Carstensen. Gaman að sjá erlenda hlaupara taka þátt í hlaupinu. Neil er vitaskuld nokkursskonar heimamaður en danann kannaðist enginn við. Neil og daninn tóku strax forystuna og fóru hratt yfir. Veðrið hélst gott fyrstu klukkutímana svo maður vonaði það besta. Er á meðan er. Ég hefði ekki látið þurrt hey liggja í þessu veðurútliti en Jörundur spáði þurru út daginn þegar hann kom við á drykkjarstöðinni á vestari enda hlaupsins!! Maraþon kláraði Neil á um 3 klst sem er ótrúlegur hraði en engu að síður fannst manni hann skokka þetta mjög létt og virtist aldrei leggja að sér. Daninn var ekki langt undan en aðrir stilltu sig niður á þann tíma sem hentaði þeim best. Það er mikilvægt í svona löngu hlaupi að finna þann hraða sem manni líður vel á og muna eftir því að það er langt eftir. Börkur og Svanur voru í 3ja og 4ða sætinu og skiptust nokkuð á í þeim sætum yfir daginn. Á ellefta tímanum fór að rigna og þá hætti manni að lítast á þetta. Það er ekki auðvelt að hlaupa 100 kílómetra og hvað þá að gera það hundblautur og hrakinn. Margir kunnugir komu við á brautinni og tóku skemmri og lengri spöl með vinum og kunningjum. Það var sem sagt mikið líf á brautinni yfir daginn. Áfram hélt hlaupið og stöðugt rigndi. Í gámnum var hitað vatn og kakó sett í hlauparana eftir því sem lystin leyfði. Í 100 km hlaupi er almennt sagt að erfiðasti partur hlaupsins sé á milli 60 og 70 km. Við sextíu km markið er maður búinn að hlaupa mjög lengi en á heilt maraþon eftir. Það þyngir sporið fyrir marga sem er fyrst og fremst af andlegum toga. Þegar línuritið sem Ágúst og félagar settu á netið er skoðað á kemur í ljós að þetta reyndist staðreynd hjá mörgun. Sporin þyngdust á þessu tímabili en svo frískast menn aftur um 80 km. Þá er ca 1/2 maraþon eftir og það er vegalengd sem virkar auðveld í þessu sambandi. Fyrstu menn kláruðu á frábærum tíma, Neil á 7.53 og Tommy á 8.13. Það er flottur tími við þessar aðstæður. Menn geta ímyndað sér muninn á að hlaupa í svona rigningu eins og var í dag miðað við að geta hlaupið í stuttbuxum og bol í þægilegum hita.

Börkur náði 3ja sætinu eftir grimma keppni við Svan sem varð fjórði í hlaupinu og annar íslendinga. Hann er 63 ára gamall en alltaf jafn léttur á sér. Svo gaman sem það er þá kláruðu allir hlaupið sem hófu keppni. Kalli var hætt kominn um tíma og búinn að koma sér fyrir inni í horni í skúrnum. Þá bar Gunna Palla að. Hann kunni nokkur "magic touch" sem gerðu Kalla eins og nýjan mann þannig að hann spratt upp og út, hvarf út í rigninguna og lauk keppni með sóma. Ingólfur lauk 100 km hlaupinu 69 ára að aldri. Börkur, Svanur, Eiður og Elín bættu sína fyrri tíma. Aðrir náðu settum markmiðum. Það er ekki einfalt að hlaupa 100 kílómetra en hvað þá að gera það í rigningu og strekking eins og var mestan partinn í dag. Til hamingju öll sömul. Framkvæmd hlaupsins var til fyrirmyndar sem skiptir ekki litlu máli. Það varðar miklu fyrir þá sem eru að berjast á brautinni að skynja það að allt er undir kontrol og þörfum þeirra er að fullu sinnt. Slíkt skilur eftir sig góðar minningar þáttakenda sem er besta auglýsing sem svona hlaup getur fengið. Það er mjög fínt að við skulum hafa fengið 16 keppendur. Í þeim 100 km hlaupum sem ég þekki til í Danmörku hafa keppendur verið svona um 30 en upptökusvæðið giska ólíkt að mannfjölda.

Ég set dálítið af myndum inn á myndasíðuna. Linkurinn er hér til hægri.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að vel heppnaðist. Ég man eftir Tommy frá Laugaveginum í fyrra, held að hann hafi verið nokkuð framarlega og þá sagði hann einmitt að hann kæmi 100% aftur í hlaup á Íslandi... spurning hvort hann komi í Laugaveginn líka.

Kv.Berglind

elvar Þór Karlsson sagði...

Það var klárlega vel staðið að þessu. Maður hafði aldrei á tilfinningunni að það vantaði eitthvað eða að það væri eitthvað vesen. Sem var mjög þægilegt.