föstudagur, nóvember 25, 2005

Fór í dag niður á lögreglustöð til að sækja um endurnýjun á byssuleyfinu. Var búinn að útvega mér öll gögn sem ég þurfti samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði fengið af netinu. Þegar ég skilaði þeim í afgreiðsluna þá spurði stúlkan: "Ertu ekki með mynd?" "Nei" sagði ég "það var ekki minnst á það á eyðublaðinu". "Nú þú hlytur þá að vera með gamalt eyðublað" sagði hún, "Nú þurfa allir að koma með mynd". "Það er nú ekki eldra en síðan í gær" sagði ég, "ég prentaði það út í gærkvöldi". "Ó" sagði hún, "þeir eru stundum seinir að láta nýtt eyðublaðið inn". Þetta pirraði mig töluvert. Rafrænt samfélag á að vera til að einfalda hlutina og gera ýmsa hluti einfaldari en það er að því tilskyldu að menn vinni vinnuna sína og hafi réttar upplýsingar á netinu. Rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Þetta blessaðist samt. Nú þurfti ég að koma mér upp byssuskáp því ég á fimm byssur. Það kemur bráðlega maður heim til að taka út skápinn. Það er breytt sem áður var. Þegar ég fékk leyfi fyrir fimmtu byssuna á Patró í den tíð þá sagði sýsli einfaldlega: "Hvað er þetta, er að koma stríð? og svo fékk ég leyfið.

Fékk í dag svar frá Örnefnastofnun um Rauðasandinn. Það er sem hér segir:

"Nafnið á Rauðasandi hefur verið á reiki. Það kemur aðeins fyrir í aukaföllum í fornritum, að ég held, þ.e. á Rauðasandi (oftast). Þeir sem samið hafa nafnaskrár hafa ýmist haft Rauðisandur eða Rauðasandur. Á korti Björns Gunnlaugssonar frá um 1840 er Rauðisandur nafnmyndin. Dönsku kortagerðarmennirnir höfðu hinsvegar nafnmyndina Rauðasandur og hefur hún verið lífseig á kortum. Á Ferðakorti 1 sem Landmælingar gáfu út nýlega (1:250 000) og við lásum yfir, er nafnið Rauðisandur, og þannig mælum við með því að það sé haft. Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson"

Ég held ég haldi mig þá við að sveitarhlutinn heiti Rauðisandur fyrst að Björn Gunnlaugsson hafi skráð það svo niður um 1840 hvað sem seinni tíma örnefnabögubósar hafa síðan bjagað það frá og til. Danskir kortagerðamenn, með fullri virðingu fyrir þeirra starfi, hafa líklega ekki verið með íslenskar fallbeygingar á hreinu. Ruglið verður síðan ekki betra við að það éti það hver eftir öðrum.

Meira um Rauðasand. Meðfram sveitinni fram við hafið liggur rifið rauða sem sveitin ber nafn sitt af. Rifið er örnefni út af fyrir sig (Bæjarrif eða Melanesrif). Í gegnum það rennur Ósinn. Milli rifsins og gróðurlendisins á útsandinum liggur Fljótið sem er lægð fyrir ofan rifið sem oft er full af vatni. Það er örnefni út af fyrir sig.
Þetta er allt skilmerkilega sýnt í kortabók Landmælinga ríkis. Í hinum nýja Íslands Atlas er Rifið á útsandinum horfið, fljótið horfið og komnir tveir ósar í gegnum rifið fyrir miðjum vaðlinum. Gróðurlendið virðist ná alveg niður í sjó. Eyja er sýnd á rifinu þar sem enginn kannast við að hafa séð eyju. Mér finnst það satt að segja með ólíkindum hvað bók sem á að vera tímamótaverk í útgáfu landakorta er full af vitleysum og rangfærslum í þessum litla sveitarhluta. Það vantar ekki hástafina um hina nýju tækni sem á að gera allt betra en áður, en hvað sér maður, landslag sem maður kannast ekkert við. Eitt enn get ég nefnt. Þess er ekki getið hvað Napinn er hár en hann er hæsti punktur fjallanna í hreppnum. Vinnufélagi minn þekkir til í utanverðum Skagafirði að austanverðu. Þar rennur á meðfram jörðinni sem afi hans og amma bjuggu á. Áin sem rennur við hliðina á bænum heitir nafni í hinum nýja Íslands Atlas sem enginn kannast við. Kort eiga að vera rétt og þau eiga að gefa mér nauðsynlegar upplýsingar. Maður á ekki að vera staðkunnugur til að vita hvað er rétt og hvað er rangt á kortum.

Í Sovétríkjunum fornu og sem betur fer sálugu voru gefin út sérstök landakort sem voru ætluð til að villa um fyrir hugsanlegum innrásarherjum. Á þeim voru borgir sem ekki voru til, vegir sem ekki voru til en raunverulegra borga og vega að engu getið. Þetta er svo sem aðferðafræði út af fyrir sig.

Engin ummæli: