þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Frekar aðgerðalítill dagur í dag. Fór ekkert út að hlaupa. Sat fund niður í Vík í kvöld um málefni handboltans hjá Fjöl/Vík. Það er svona að komast lag á hlutina eftir að meistaraflokkar og 2. flokkar félaganna voru sameinaðir í haust. Vonandi verður þetta báðum félögunum til farsældar en til að svo megi vera verður að vera almennilegt lag á hlutunum.

Fékk gott símtal í dag frá gömlum flokksfélaga sem hefur sopið marga fjöruna gegnum tíðina. Hann setti fram áhugaverða kenningu um hagkvæmni smæðarinnar hjá stjórnmálaflokkum og hvernig smæðin getur orðið að markmiði út af fyrir sig. Hann sagðist finna þessi misserin ákveðna lykt sem hann hefur fundið áður á símum pólítíska ferli. Gaman að heyra í mönnum sem hafa ákveðnar skoðanir og tilfinningar fyrir hlutum og einstaklingum en eru ekki að hugsa um eigin hag.

Guðjón Ólafur skrifaði dálítið athyglisverða stjórnmálaskýringu á Hrifluna í dag þar sem hann fer yfir úrslit prófkjörsins í Kópavogi. Honum er dálítið niðri fyrir og hefur að því mér sýnist ákveðnar ástæður til þess.

Sá seinni hluta myndarinnar Skuggabörn eftir Reyni Traustason í kvöld. Maður verður alltaf allt að því orðlaus þegar maður sér svona yfirferð. Það sem manni kemur fyrst í hug eru manns eigin krakkar og hvernig þeirra örlög verða. Það er kannski egóistaháttur en svona er það nú bara samt.

Jón Ólafsson fór víða yfir í sjónvarpinu í kvöld og gerði upp við ýmsa. Það var eins gott að tókst að koma tækninni í lag hjá Ríkissjónvarpinu því annars hefði stofnunin verið í vondum málum. Nógu slæmt var að koksa á útsendingunni í gærkvöldi.

Engin ummæli: