Ég er stundum að pikka í ríkisrekna fjölmiðla. Ég er ekki að því vegna þess að mér sé eitthvað ver við þá en aðra fjölmiðla heldur vegna þess ég geri meiri kröfur til þeirra en annara því ég er skyldugur til að borga þeim peninga og get ekki komist undan því. Þess vegna er ég pirraðri þegar ég er ósáttur við eitthvað sem kemur frá Efstaleytinu heldur en ef það kemur frá öðrum. Tvö nýleg dæmi. Þeir sem lentu í hremmingunum í Húnavatnssýslunni yfir helgina hafa tjáð sig um það að þeim finnst ríkisútvarpið ekki hafa sinnt almannavarnarhlutverki sínu við þessar aðstæðu með því að vera með virka þátttöku í að leiðbeina fólki og kynna aðstæður fyrir þeim sem þarna voru á ferðinni. Aðstæður voru vægast sagt slæmar, fjöldi fólks á ferðinni og við slíkar aðstæður á útvarpið að grípa inn og vera sýnilegt (heyranlegt). Manni hefur nefnilega verið sagt að almannavarnahlutverk ríkisútvarpsins sé ein af forsendum þess að það sé þvinguð áskrift að því. Ég er hins vegar ekki búinn að gleyma jarðskjálftunum árið 2000.
Hitt dæmið sem ég var pirraður út af og það öllu meir var Spegillinn í gær. Vinnufélagi minn sagði mér frá umfjöllun Spegilsins í fyrradag um samskipti Landsvirkjunar og hreppsnefnd Gnúpverjahrepps um virkjanaframkvæmdir á Þjórsárverasvæðinu. Jón Kristjánsson settur umhvfisráðherra felldi úrskurð árinu 2003 um fyrirkomulag virkjana. Sumir voru sáttir, aðrir ósáttir. Í gær var síðan viðtal í Speglinum við Friðrik Sófusson forstjóra Landsvirkjunar um málið líklega í kjölfar umfjöllunarinnar í fyrradag. Hjá Friðriki kom fram að skoðanir væru skiptar um málið í hreppnum og væru sumir sammála afstöðu hreppsnefndar en aðrir ekki eins og fréttamaðurinn hefði komist að ef hann hefði leitað eftir afstöðu íbúanna. Þá kom það sem mér þótti athyglisvert. Fréttamaðurinn sagðist eingöngu hafa viljað tala við þá sem væru á móti framkvæmdum. Þá er þetta ekki lengur orðin hlutlaus umfjöllun þar sem með og mótrök er leidd fram heldur einhliða áróðursþáttur þar sem rök annars aðilans eru markvisst leidd fram. Samkvæmt mínum skilningi þá er það ekki hlutverk ríkisútvarpsins að vera með einhliða áróðursþætti í svona málaflokkum, heldur að styðja að opinni og upplýstri umræðu. Annað hvort er ég að misskilja hlutina eða að viðkomandi fréttamaður hefur ekki alveg fundið sporið.
Ég vil taka það fram til að fyrirbyggja allann misskilning að ég er talsmaður þess að allrar varkárni verði gætt við virkjunarframkvæmdir á Þjórsársvæðinu. Fólk sem ég þekki vel og hefur víða varið hefur sagt mér að það séu fá svæði ef nokkur á landinu sem jafnist á við Þjórsárverin.
Vetrarfrí í grunnskólum. Til hvers? Ef vetrarfrí eru nauðsynleg hvers vegna geta þá sumir skólar tekið ákvörðun um að hafa engin vetrarfrí og klára bara fyrr á vorin? Miður nóvember er ekki sá tími sem er hefð fyrir að foreldrar barna á grunnskólaaldri labbi úr vinnu og taki sér frí dögum saman.
miðvikudagur, nóvember 02, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli