Sá úrslitin frá New York marathon í dag. Rúmlega 20 manna hópur tók þátt í hlaupinu og kláraði það með sóma. Brautin er frekar erfið m.a. vegna töluverðra brekkna svo tímarnir eru eftir því. Mig langar til að taka einhvern tíma þátt í því og þá fyrst og fremst sem upplifun með myndavél í hendi. Tíminn skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi.
Fyrir þá sem hyggja á nýjar þrautir í langhlaupum þá sá ég á netinu í dag að Gaddafi Líbyuforseti hefur skipulagt ultrahlaup hjá sér. Það er einn liður í að laða fólk til landsins sem er verið að opna smám saman. Um er að ræða samtals 190 km ferðalag (hlaup) í gegnum eyðimörkina. Gert er ráð fyrir 4 dögum til að klára hlaupið. Þátttakendur bera allan mat á bakinu en fá 4,5 líter af vatni á 20 km fresti. Fyrir áhugasama er slóðin www.libyanchallenge.com. Það er allavega hægt að skoða myndirnar, fá aðeins hugmynd um hvað þarna er á ferðinni og svo er bara að láta sig dreyma.
Las ágætan pistil eftir Bergljótu Davíðsdóttur í DV í dag. Hún fjallar þar um ungdómsdýrkunina hérlendis sem er farin að tröllríða umræðunni á ólíklegustu stöðum. Þetta kom meðal annars skýrt fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þar sem ungur aldur með tilheyrandi reynsluleysi var talinn til mikilla kosta. Bergljót vitnar í viðtal á einhverri stöðinni (líklega Útvarpi Sögu) þar sem Eríkur Jónsson og Reynir Traustason spjölluðu við kosningastjóra GMB. Henni blöskraði orðavalið hjá kosningastjóranum þar sem hún talaði um VÞV eins og elliært gamalmenni, mann sem er 58 ára gamall það ég held. Mig undrar ekki þótt fylgið hafi ekki orðið meira hjá GMB ef talsmenn hans hafa talað um keppinautinn af sama hroka og Bergljót vitnar til í pistlinum. Það er orðið svo víða að margir vilja fá allt upp í hendurnar fyrir að vera eitthvað en ekki fyrir að hafa unnið til þess.
mánudagur, nóvember 07, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli