Kom að norðan í gærkvöldi. Góð ferð norður enda þótt jarðarfarir séu ekki tilefni til neinna skemmtiferða. Færðin var þó heldur varasöm töluverðan hluta leiðarinnar vegna hálku. Dauðaslys í Norðurárdalnum undirstrikaði enn fremur nauðsyn þess að aka varlega. Það veit enginn hver er næstur. Hittum margt fólk fyrir norðan frá Raufarhöfn sem við höfum ekki séð nokkuð lengi, sumt ekki síðan við fluttum að norðan. Alltaf gaman að hitta góða kunningja og rifja upp gömul kynni. Gerðum síðan stuttan stans á Bifröst á suðurleiðinni og tókum hús á fjölskyldu frá Raufarhöfn sem býr þar úti í skógi. Vinkona okkar tók sig upp í haust og skellti sér í skólann á Bifröst og hefur tvo syni sína með sem eru á grunnskólaaldri. Mamma hennar er með til að sjá um strákana en nóg er að gera í skólanum. Frábært að sjá þegar fólk sem er að klára að koma börnunum til manns söðlar um og hellir sér í nám. Þetta er erfitt en afar gaman.
Á leiðinni norður hlustaði ég á fréttir í RÚV. Í fjögurfréttum á sunnudaginn var fyrsta frétt að fríkirkjupresturinn hefði í predikun morgunsins lagt áherslu á að lögum yrði breytt þannig að kirkjan gæti gefið saman samkynhneigt fólk. Án þess að ég ætli að leggja mat á efni predikunarinnar þá fór ég að velta fyrir mér hvernig svona ber að þegar RÚV setur sem fyrstu frétt innihald einnar messuræðu á þessum sunnudegi. Nú halda prestar út um allt land ræður um mismunandi efni á sunnudagsmorgnum. Hvernig ætli standi á því að einmitt þessi ræða varð fréttaefni? Ætli það hafi verið vegna þess að presturinn hafi af tilviljun sagt vini sínum frá því um hvað hann ætlaði að ræða og vinurinn hafi af tilviljun sagt einhverjum öðrum og svo koll af kolli þar til fréttin barst upp á fréttastofu RÚV og þeir sáu að þarna var stöff. Eða ætli það hafi verið þannig að þegar presturinn var búinn að skrifa ræðuna þá hafi hann séð að textinn var harla góður og ætti erindi til fleiri en þeirra sem mættu í messuna og hringt í útvarpið og beðið þá um að mæta. Eða ætli hann hafi hreinlega verið beðinn um af einhverjum aðilum að halda ræðu um þetta efni og þeir síðan séð um að fá fréttamenn á vettvang? Hvernig ætli RÚV myndi bregðast við ef margir prestar væru að halda ræðu um áhugavert efni og allir myndu hringja upp í útvarp? Hvað ef margir þrýstihópar væru búnir að finna hver sinn prest sem myndi tala um viðkomandi efni í sunnudagsræðunni? Hvernig á RÚV að velja? Ætti RÚV að birta úrdrátt úr áhugaverðustu ræðu presta á hverjum sunnudegi? Hver á þá að velja áhugaverðustu ræðuna, (útvarpsstjóri eða menntamálaráðherra)?
Svona spurningar sitja eftir og þeim verður vafalaust aldrei svarað.
þriðjudagur, nóvember 22, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þetta er langt í frá fyrsta skipti sem prédikun kemst í fréttir og eins og yfirleitt með fréttir þá er það auðvitað þannig að blöðin eru látin vita.
Auðvitað er þessi prédikun fréttnæm, þetta er stórmál í kirkjunni, og ég verð að viðurkenna að mér finnst eins og það sé frekar innihaldið en leiðin í blaðið sem truflar þig?
Ætli það sé nokkur spurning að presturinn segi frá?
Er ekki búið að vera ljóst lengi annars að séra Hjörtur sé þessarar skoðunar?
Messunni var útvarpað, þannig vissi RÚV. Presturinn eflaust valið að nota tækifærið enda kom nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar málinu aftur "á dagskrá" ef svo má segja.
Skrifa ummæli