þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Sá í gær að Dean Karnazes hefði unnið enn eitt ótrúlega afrekið. Hann hljóp 350 mílur í einum strekk og var 80 klst og 44 mín að því, non stopp og án þess að sofna. Hann hljóp í kringum San Fransisco flóa, ekki þekki ég nákvæmlega leiðina til að geta lýst henni en hún er löng. Innifalið í hlaupinu var hið 199 mílna langa San Fransisco relay race. Á þriðja sólarhring fór hann að sjá sýnir að sögn, bæði horfði hann á sjálfan sig hlaupa og einnig sá hann fullt af dýrum í kringum sig, sem engir aðrir sáu!! Hann framkvæmdi þetta afrek sitt dagana 12. - 15 október sl. Þessi löngu hlaup sem hann hefur hlaupið 200 mílur og þar yfir eru yfirleitt gerð sem fjársöfnunaraðferð vegna sjúkra smábarna. Svo var einnig í þetta sinn.

Horfði á Kastljós með nokkrum áhuga í gærkvöldi. Ekki það að ég hefði sérstakan áhuga á efninu heldur vegna þess að ég skildi því sem næst ekkert af því sem viðmælandinn sagði og talaði hann þó íslensku. Það var rætt við listakonu sem fékk einhver verðlaun fyrir verk sín. Kannski er maður svona slow að maður skilur þetta ekki eða er listafólkið á einhverju allt öðru tilverustigi en almennur pöpullinn. Hvað veit ég, en alla vega veit ég að ég skildi því sem næst ekkert af því sem konan sagði og er hún þó af Auðunnarstaðaættinni eins og undirritaður.

Engin ummæli: