sunnudagur, nóvember 13, 2005

Fór á Himnaríki í Hafnarfjarðarleikhúsinu á föstudagskvöldið. Maður fer því miður of sjaldan í leikhús því yfirleitt kemur maður ánægðari út en þegar inn var farið. Himnaríki byggir á skemmtilegri og óvenjulegri hugmynd sem var vel útfærð. Ungir leikarar í bland við aðra eldri og allir stóðu sig með sóma. Mæli með leikritinu ef fólk langar til að æfa hláturtaugarnar eina kvöldstund.

Sat stóran hluta af miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á föstudag og laugardag. Greinilegt er að fólk hefur nokkrar áhyggjur af stöðu flokksins meðal kjósenda og fóru fram um það nokkuð hreinskiptar umræður á föstudagskvöldið.

Fór góðan hring í frostinu í gærmorgun. Á mannbroddum er maður í góðum gír og þarf ekki að hafa áhyggjur af hálkunni. Það er ánægjulegt að heyra þegar maður sest niður með félögum sem maður hittir ekki oft á fundi eins og miðstjórnarfundinum hvað margir eru að stunda markvissa hreifingu af einhverju tagi. Gönguferðir, sund, æfingasali, hjólreiðar og skokk. Menn lýsa því síðan af mikilli ánægju hvað líðanin batnaði þegar 6 - 8 kíló voru fokin. Margir segja að það hafi ekki þurft meira en að venja sig á að borða aðeins minna en þá langaði í. Fá sér einu sinni á diskinn í stað þess að fá sér tvisvar. Það er ekki flóknara.

Ég renni yfir nokkuð margar bloggsíður með reglubundnum hætti. Yfirleitt eru það síður hlaupara og þeirra sem hafa áhuga á stjórnmálum. Bloggheimar hlauparasamfélagsins samanstanda af jákvæðu og skemmtilegu fólki sem deilir væntingum og þrám, sigrum og ósigrum, góðu gengi jafnt sem erfiðleikum með öðrum. Þar styður hver annan og ráð og góðar óskir fljúga á milli manna. Sigur eins gleður annann.

Pólitíska samfélagið er nokkuð öðruvísi, enda eðlilegt. Það er fjölbreytilegra og misjafnara. Margir stjórnmálamenn eru góðir pennar sem gaman er að lesa, enda þótt maður sé ekki alltaf sammála þeim. Margir skrifa reglulega en það er ekki sama að segja um aðra. Össur Skarphéðinsson er góður penni og á oft skemmtilega spretti. Sama má segja um Mörð félaga hans, enda íslenskufræðingur og afar vel lesinn. Kristinn H. Gunnarsson og Hjálmar Árnason halda úti góðum heimasíðum og sama má segja um Jón Einarsson skagfirðing sem skrifar oft af miklum þrótti. Mér finnst einnig gaman að lesa síðu Vefþjóðviljamanna. Þeir eru mjög vel ritfærir og hafa sína áhugaverðu og oft gagnrýnu en yfirleitt málefnalegu sýn á atburði líðandi stundar. Þeir eru ekki bangnir við að gagnrýna sína flokksmenn frekar en aðra og er það ákveðið gæðamerki. Það er helst þegar fer að nálgast ákveðið afmæli að manni þeir vera komnir á grensuna. Tíkin er einnig góð. Stefán Pálsson VG maður er mikill skrifari og oft gaman að glugga í hvað hann er að spökulera.
Svo eru aðrir stjórnmálamenn sem halda úti síðu en skrifa sjaldan og oft lítið. Maður fær á tilfinninguna þegar maður sér heimasíðu sem ekki hefur verið skrifað inn á mánuðum eða misserum saman að viðkomandi hafi ekkert fram að færa. Það er betra að loka slíkri síðu heldur en láta hana liggja afvelta í blogghaganum.
Svo er þriðja kategorían og sú daprasta. Það er sá hópur ástundar ekki mikið málefnalegar umræður um stjórnmál heldur notar bloggsíðuna til að kasta skít í nafngreinda einstaklinga af hvötum sem liggja ekki alltaf í augum uppi. Ef maður hefur fest slíka síðu inni í tölvunni hjá sér en sér síðan hvað þær hafa að geyma þá er lausnin yfirleitt sú að nota delete takkann. Þá fennir fljótt yfir þær.

Engin ummæli: