sunnudagur, nóvember 27, 2005

Tók hring í hverfinu í gær í góðu veðri. Gott að fá þægilegt veður eftir hryssing liðinna vikna. Ég sneri við og sótti gormana eftir stuttan spöl því það var ansi launhált. Dagurinn leið án stórtíðinda, við hittum nokkra embættismenn niður í vinnu í kringum hádegið til að ganga frá frumvarpi er varðar innheimtu fasteignaskatts.

Tók síðan gott hlaup í morgun. Fór snemma út eða upp úr kl. átta. Veðrið var afar gott, logn og hiti rétt undir frostmarki. Það var afar flott að hlaupa á móti morgunroðanum austur Ægissíðuna og sjá himin og ljós speglast í lognkyrrum Fossvoginum.

Hef verið að skoða linsur á netinu undanfarna daga og lét til skarar skríða í gærkvöldi. Ljósmyndari í Ohio í Bandaríkjunum er að selja linsu og fá sér aðra. Hann er með vef sem sýnir myndir sem hann hefur verið að taka. Þetta gekk allt upp og nú er barfa að bíða þar til gripurinn kemur.

Fór niður að tjörn í gær til að taka myndir. Við sérstakar aðstæður þegar tjörnin er ísilögð og síðan hefur hlánað og myndast mjög þunnt vatnslag ofan á ísnum þá speglast húsin á mjög skemmtilegan hátt í tjörninni. Þetta kemur sjaldan fyrir þegar tjörnin er auð því þá er alltaf einhver hreyfing á yfirborðinu. Ég hef oft séð þetta en alltaf misst af því að taka myndir. Nú voru kjöraðstæður fyrir spegilmyndatökur af húsaröðinni. Það kemur sjaldan betur í ljós en við svona aðstæður hvað ráðhúsið passar illa inn í umhverfi tjarnarinnar.

Fékk email frá Grody Ainsleigh í gær. Það hafa farið tölvupóstar á milli manna í sambandi við rannsóknina sem átti sér stað í tengslum við WS í sumar. Menn eru að skiptast á skoðunum og læra hver af öðrum. Gordy segist aldrei munu nota íbúfen eða annað álíka í langhlaupum. Hann notar stóra skammta af C vítamíni og selium fyrir og í hlaupum svo dæmi sé nefnt. Hann byggir sig upp af þeim efnum sem hann veit að gengur á í hlaupinu bæði fyrir hlaupið og í hlaupinu sjálfu. Ég þarf að fara aðeins yfir það sem hann sendi mér til að vera viss um að ég skilji allt vel og gefa síðan fleirum aðgengi að því. Gordy er þjóðsagnapersóna í þessum ultraheimi. Hann starfar sem kírópraktor og hugsar mikið um heilsuþáttinn. Hann var hálflasinn og illa kvefaður fram í maí lok í vor. Þá náði hann kvefinu úr sér og tók síðan reynsluhlaup tveim vikum fyrir start upp á 42 mílur eða 67 km. Hann kláraði síðan WS á undir 24 klst, 59 ára gamall. Geri aðrir betur.

Engin ummæli: