miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Hvað er að gerast? Er búið að uppgötva að íslenskir maraþonhlauparar eru til? Þeir hafa til þessa að mestu unnið afrek sín í kyrrþey, því fjölmiðlamenn hafa meðal annars meiri áhuga á ekkifréttum af þeim íþróttamönnum sem stunda íþróttagreinar sem eru í uppáhaldi hjá þeim sem ráða fréttavalinu.

Í gær var umfjöllun um maraþonhlaupara í New York og meira boðað um helgina. Í dag er svo tveggja síðna viðtal við Bryndísi okkar Svavars í Blaðinu. Hún á það svo sannarlega skilið með sín 66 maraþon bak við sig. Hún er góður fulltrúi þess mikla meirihluta sem stundar hlaupin til að styrkja sig andlega og líkamlega, er góður félagi í hlaupunum og er góð fyrirmynd. Hún verður örugglega fyrsti íslendingurinn sem hleypur 100 maraþon. Þá er rétt að slá í hátíð og taka viðtöl.

Ég sló inn Runners World í dag á Google. Þar opnaði ég ítalska síðu sem minntist á Laugaveginn. Stendur ekki Ívar Adolfsson þar við ca 10 mann og eru allir ansi glaðbeittir. Þar er líklega kominn hópurinn sem hljóp í Róm í sumar. Ég skal ekkert fullyrða því ekki skil ég ítölsku.

Síðan sendir Pétur Reim mér tölvupóst í dag og segir mér frá grein í Runners World UK þar sem sé fín grein um Laugaveginn frá því í sumar. Þar ku vera mynd af undirrituðum með einar þrjár föngulegar konur þétt á eftir. Gott að ekki kemur fram að þær hlupu allar á undan mér áður en yfir lauk. Pétur lofaði að gefa mér blaðið ef ég gengi í Sjálfstæðisflokkinn og færi að halda með KR. Ég sagði að ég skyldi skoða þetta með flokkinn en það væru takmörk fyrir öllu og ég gæti bara ekki lagt það á mig að eignast blaðið og kosta því til að fara að halda með KR. Hann ætlar að lána mér blaðið á morgun.

Kláruðum að undirbúa Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. Á morgun mæta yfir 400 sveitarstjórnarmenn til fundar á Nordica Hotel og sitja þar yfir umræðu umsveitarstjórnarmál í tvo daga. Mætingin vex með hverju ári sem líður eftir að við komumst inn á Nordica. Konurnar í vinnunni sátu yfir smá hvítvínslögg undir vinnulok í dag og voru ánægðar með að öllum undirbúningi væri lokið sem er svo sem ekki mikill miðað við það sem áður var. Fyrir nokkrum árum stóðu þær sveittar við í allt að viku við að ljósrita allt sem ráðstefnunni viðkom. Nú er allt sett inn á netið og ljósritun í lágmarki, pappírsfarganið orðið smámunir hjá því sem var, skráning orðin rafræn og ég veit ekki hvað.

1 ummæli:

kókó sagði...

Ertu svona spéhræddur Gunnlaugur? Öðruvísi mér áður brá.