föstudagur, júní 27, 2008

Fórum í gönguferð í gærkvöldi með eldri og yngri Sveini upp í Laufskörð. Ég hafði aldrei komið þangað áður svo það var kominn tími á það. Ég rataði ekki alveg leiðina upp að göngubrúnni svo vð lögðum bílnum niðri við bæinn og gengum uppeftir. Á leiðinni lentum við inni í tveimur graðhestagirðingum en það kom ekki að sök. Verst var að klifra yfir girðingarnar, þær voru yfirleitt vel girtar og háar. Það er stinningslabb upp á brún, svona svipað eins og upp á brún við Þverfellshornið. Við vorum það seint fyrir að við fórum ekki túrinn eftir Móskarðshnjúkunum heldur gengum beint niður aftur. Komum heim um 1.30 um nóttina. Sveinn eldri var léttur til gangs enda þótt hann sé orðinn 76 ára gamall. Hann lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

Fór á landsleikinn í Laugardalnum en sá reyndar bara fyrri hálfleikinn. Það var klassamunur á liðunum og íslensku stelpurnar höfðu verðskuldaða forystu í hálfleik 3 - 0. Fjögur mörk komu til viðbótar áður en yfir lauk. Árangur íslenska liðsins hefur verið mjög góður í þessari undankeppni og hafa stelpurnar sigrað landslið frá fjölmennum þjóðum og standa jafnfætis franska liðinu sem er í hópi þeirra bestu í Evrópu. Maður getur velt fyrir sér hvers vegna það sé. Nú á svona smáþjóð að öllu jöfnu ekki að vera í fremstu víglínu í hópíþrótt þegar tekið er mið af því úrvali eiinstaklinga sem þjóðin býr yfir. Ástæðan er skannski ekki síður sú að hérlendis eru menn nokkuð á undan mörgum öðrum þjóðum að byggja upp kvennaknattspyrnu. Knattspyrnan hefur áratugum saman verið dæmigerð karlaíþrótt en það viðhorf er að breytast gríðarlega. Að flestu leyti hafa stelpurnar sömu möguleika að þroska sig í íþróttinni eins og strákarnir. Það er boðið upp á þjálfun fyrir stelpur frá unga aldri til jafns við strákana. Mót fyrir stelpur eru haldin út um allar koppagrundir eins og fyrir strákana. Þær fara í keppnisferðir erlendis eins og þeir. Það eru gerðar kröfur um álíka fjölda æfingatíma fyrir þær eins og strákana og jafngóða þjálfara. Allt er þetta eðlilegur hlutur á þeim tímum þegar gerðar eru kröfur um að hæfileikar allra fái að njóta sín. Það er því að mörguleyti dæmigert fyrir stöðu kynjanna hérlendis að kvennalandsliðið í fótbolta skuli vera í hópi þeirra fremstu í Evrópu á meðan karlalandsliðið skuli vera í 100 sæti á heimslistanum (kannsi á þeim stað sem eðlilegt er að það sé). Kynjafræðingar mættu beina svolítilli athygli að þessu í stað þess að vera sífellt að hamra á því að hér sé allt á steinaldarstigi í jafnréttismálum.

Veðrið er alveg svakalega gott þessa dagana og fínt til að hlaupa. Það er sama hvenær dagsins það er, að morgni, í hádeginu eða á kvöldin. Fór 10 km í Elliðaárdalnum í kvöld. Það gerist ekki betra.

Jói og félagar spiluðu fyrstu tvo leikina á Granollersmótinu í dag. Fyrri leikinn unnu þeir nokkuð öruggglega. Síðan spiluðu þeir við lið heimamanna og unnu þá með eins marks mun. Spilað var á malbiki sem strikaður hafði verið á handboltavöllur. Okkar strákar höfðu aldrei spilað handbolta við slíkar aðstæður og hvað þá með brennandi sól í andlitið ofan í kaupið. Granollers er um 80.000 manna borg þannig að bakland heimamanna er töluvert. Sigurinn var því mjög sætur. Síðasti leikurinn í riðlinum verður spilaður á morgun.

„Geysir Green fá sekt.“ las maður í einu dagblaðanna. Já fengu félagarnir Geysir og Green sekt fyrir eitthvað. Það væri hægt að segja: „Gög og Gokke fá sekt“ en Geysir Green fékk sekt eða var sektað.
„Borholan verður 1800 metra löng“ Þetta stóð í textavarpi sjónvarpsins. Ekki í fyrsta sinn sem svona orðaklám sést í fjölmiðlum. Skilja menn ekki að það sem fer niður í jörðina er djúpt, það sem liggur á jörðinni er langt en það sem stendur upp í loftið er hátt. Ef menn skilja ekki muninn á þessu verður innan tíðar farið að segja að holan sé 10 metra há, vegurinn sé 100 km djúpur og blokkin sé 40 metra löng.

2 ummæli:

Óli sagði...

Ég rak augun í blurb bækurnar þínar. Þær sóma sér í hvaða myndabókahillu sem er.
Ótrúlega flottar myndir, sérstaklega finnst mér norðurljósamyndirnar þínar góðar. Til hamingju með bækurnar - vonandi koma fleiri.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta. Blurbbækurnar voru skemmtilegt lítið verkefni sem ég þarf að gefa mér tækifæri til að þróa aðeins áfram.
Mbk
Gunnl.