Það var stór dagur í Rauðagerðinu í dag. Sveinn Friðrik var að útskrifast úr HÍ með BS í stærðfræði. Hann lauk náminu með sóma eins og við var að búast. Hann þurfti að mæta niður í Laugardalshöll um kl. 13.00 en við mættum kl. 13.30 og mátti ekki seinna vera því það var allt að fyllast. Útskrifaðir voru rúmlega 1000 nemendur og segir það sig sjálft að það er nokkuð handtak að gera það allt eftir kúnstarinnar reglum. Það var gaman að sjá félagahópinn samankominn við námslok en sumum hefur maður fylgst með í ein 15 ár meir og minna. Félagar Sveins frá því úr Réttó, Jommi og Hössi luku einnig námi í dag með miklu láði, báðir með ágætiseinkunn. Frá árunum í MR kom einnig góð viðbót í félagahópinn sem flestir luku námi í dag. Fínn dagur í frábæru veðri. Það vakti athygli mína að tannlæknadeildin með deildarforseta og allt útskrifaði einungis 6 nemendur en það er árlegur kvóti. Síðan eru aðrar deildir sem útskrifa á þriðja hundruð nemendur úr hinum ýmsu skorum. Ætli þetta sé einhver gömul hefð sem erfitt sé að brjóta upp að halda úti sérstakri deild í kringum tannlæknanámið en fella hana ekki undir t.d. læknadeildina? Háskólarektor flutti ræðu eftir útskriftina og ræddi ýmis mál, meðal annars um framþróun innan skólans. Prósentutölur um breytingar á ýmsum sviðum segja svo sem ekki mikið ef maður veit ekki fjöldann sem á bakvið stendur. Til viðbótar þarf maður að vita um hliðstæðar tölur úr öðrum álíka háskólum s.s. tíðni greinaskrifa í virt fræðirit til að geta dæmt um stöðu skólans á alþjóðavettvangi. Ég held að til skamms tíma hafi staða skólans ekki verið góð hvað þetta varðar en það stendur vonandi til bóta. Ég hef hins vegar alltaf efast um að það markmið að koma HÍ í hóp 100 bestu háskóla í heiminum sé raunhæft. Held meira að segja að það sé mjög langt frá því. Þegar fræðimaður við HÍ er búinn að fá Nóbelsverðlaun skulum við fara að ræða þetta markmið. Í Berkley háskólanum í Californíu eru Nóbelsverðlaunahafar þeir einu sem hafa merkt bílastæði svo dæmi sé nefnt.
Við fórum í kvöld að borða á "Við Tjörnina" með ömmunum og öfunum. Góður matur þar eins og ævinlega.
Fór Eiðistorgshring í morgun í góðu veðri. Fínt hlaup með ágætu álagi.
Víkingur spilaði við Leikni í dag. Úrslitin voru náttúrulega stórt kjaftshögg því Leiknir fór með sigur af hólmi, félag sem ekki hafði unnið leik í mótinu til þessa. Það er eitthvað mikið að í Víkinni enda þótt félagið sé hið eina í fyrstu deild með þjálfara í fullu starfi. Það er ekki nóg að gera eitthvað, það verður að gera réttu hlutina á réttan hátt.
Félagi Halldór lenti í hremmingum á fimmtudaginn. Hann varð fyrir því óhappi að lenda í árekstri á hjólinu í Fossvoginum. Hann rifbrotnaði, viðbeinsbrotnaði og annað lungað féll saman. Hjálmurinn mölbrotnaði sem segir manni hvað hefði gerst ef hann hefði verið hjálmlaus. Hinn hjólreiðamaðurinn rotaðist en slasaðist minna. Það birtist grein í Mogganum nýlega þar sem fjallað var um merkingar fyrir hjólreiðamenn á göngustígum í borginni og hve slæmar þær eru. Eins og flestir vita þá er merkt mjó ræma annars vegar á göngustígunum. Það er allt í lagi fyrir þá sem koma úr þeirri átt að það passar fyrir þá að hjóla á ræmunni hægra megin en hvað á sá að gera sem kemur úr gagnstæðri átt. Á hann að hjóla á ræmunni eða á hann að hjóla hins vegar á stígnum. Í dæmi Halldórs hefur sá sem kom á móti greinilega haldið að hann ætti að hjóla á hjólreiðamerktu ræmunni og þá gerast slysin þegar menn mætast og útsýni er takmarkað. Laugavegurinn er farinn í vaskinn hjá þeim hjónum en vonandi nær hann sér fljótt eftir þetta áfall. Þetta er ekki lengi að gerast.
laugardagur, júní 14, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Til hamingju með strákinn Gulli minn gaman þegar unga fólkinu gengu vel Bestu kveðjur
Erla
Takk fyrir kveðjuna Erla mín. Þetta eru miklir fyrirmyndarstrákar.
Mbk Gulli
Hjartanlega til hamingju með strákinn, Gunnlaugur !
Varðandi hjólastígana þá held ég að sá sem hannaði þetta kerfi hafi ekki gert sér grein fyrir því hvílíkur hraði er í gangi hjá hjólreiðamönnum. Þegar bifreiðar komust á þennan hraða hér í denn voru götur breikkaðar og settar umferðareglur ...
Sæll Gulli minn og þið öll,
Hjartanlegar hamingjuóskir með strákinn, alltaf gaman að sjá ungana ljúka svona stórum áfanga. Megi framtíðin verða björt og laus við allar torfærur fyrir utan þær sem nauðsynlegar eru til að ná þroska.
Kærar kveðjur til ykkar,
Sólveig frænka.
Takk fyrir góða kveðju Sólveig mín.
Mbk
Gulli
Skrifa ummæli