miðvikudagur, október 26, 2005

Í dag eru tíu ár liðin frá því að snjófljóðin féllu á Flateyri. Árið 1995 var Vestfirðingum afar erfitt því í febrúar fyrr um árið hafði fallið snjófljóð á Súðavík þar sem 12 manns féllu, þar af ein skólasystir mín og vinkona frá því á Hvanneyrarárunum. Þessir atburðir er fastir í minningunni. Þá bjuggum við norður á Raufarhöfn og maður skynjaði vel þá tilfinningu sem fylgir því að búa í litlu samfélagi og fá slíkar fréttir frá öðru álíka stóru. Maður gat ímyndað sér stöðuna ef snjófljóð hefði skorið bita úr byggðinni, bara spurning hvaða hluti það hefði orðið. Að gera tilraun til að ímynda sér það sem fylgir svona áfalli er eiginlega of erfitt til að það sé reynandi. Uppbyggingin hefur gengið vel bæði á Flateyri og Súðavík á þeim tíu árum sem liðin eru og samfélögin standa sterk að ýmsu leyti.

Las viðtal í Mogganum í morgun við gamlan félaga minn frá Patreksfirði, Alla frá Fit. Hann hefur verið sjómaður í um 35 ár frá Patró, byrjaði veturinn 1968 sem 15 ára strákur á Garðari BA sama vetur og ég steig mín fyrstu skref sem sjómaður á Maríu Júlíu. Mín sjómannstíð varð hins vegar aldrei mjög löng. Við ólumst upp sitt hvoru megin við Skörðin en höfum einhverra hluta vegna gengið hver sinn veg í lífinu að mestu leyti. Á þessum árum var mikið umleikis á Patró og öðrum álíka þorpum og sveitirnar fullar af fólki. Alli vann síðan í mörg ár sem háseti og stýrimaður á hinum og þessum vertíðarbátum frá Patró og hin seinni ár sem útgerðarmaður á eigin trillu. Það er ekki einleikið hvernig kerfið hefur leikið hann gegnum tíðina. Yfirleitt hefur hann lent öfugu megin hryggjar þegarf kerfið hefur breytt um kúrs. Það hlýtur að vera erfitt og slítandi að finna það að fótunum er sífellt kippt undan manni þegar trú er farin að byggjast upp á að nú sé fengið fast land undir fætur. Ekki er hægt að álasa honum fyrir að hafa ekki sinnt sínu starfi, oftar en einu sinni verið með aflahæstu mönnum á landinu á bátnum sínum. Svona er þetta, það er stundum eins og óheppnin elti suma öðrum frekar.

Mig langar að klára umræðuna um kvennafrídaginn á því að velta fyrir mér þeim fullyrðingum sem haldið var mjög stíft fram í aðdraganda dagsins að konur hefðu aðeins 64% af launum karlmanna. Ég þori að fullyrða að þessi staðhæfing sé í besta falli hálfsannleikur en líklega alröng. Mér finnst svona fullyrðingar vera þess eðlis að maður þurfi að fá staðreyndir málsins fram í dagsljósið. Hvað stendur á bak við þetta? Voru ekki birtar niðurstöður rannsókna nýlega sem sýndu fram á að það mætti leiða líkur á að fyrirhendi væri eitthvað um 7% launamunur sem væri hægt að kalla því nafni. Er þessi munur sem minnst var á meðal annars kominn til vegna þess að konur vinna frekar á leikskólum, við kennslu og afgreiðslustörf svo dæmi sé nefnt en karlar frekar við sjómennsku, byggingarvinnu og á vinnuvélum? Ef þessi munur á því hvaða atvinnugreinar kynin velja sér er ein af forsendunum fyrir þeim fullyrðingum sem dælt var hömlulaust yfir landslýð þá er maðkur í mysunni. Hjá sveitarfélögunum er verið að vinna að margumræddu starfsmati. Sveitarfélögin eru stærsti vinnuveitandi landsins. Starfsmatið útrýmir kynjabundnum launamun, vegna þess að það er lagt mat á störfin en ekki hverjir sinna þeim. Ég verð að segja að eftir að hafa hlýtt á málflutning öfgafullra feminista á liðnum árum þá tek ég mörgu því með fyrirvara sem frá þeim kemur.

Af hverju var ekki tekinn einhver karl og honum velt upp úr tjöru og fiðri um daginn á sviðinu á Ingólfstorgi um daginn? Það hefði t.d. mátt taka einhvern kallinn sem var að taka myndir fyrir fjölmiðlana eða einhvern úr þeirra hópi sem sáu um að halda hljóðkerfinu gangandi. Það hefði verið í stíl við sumt annað. Nóg um kvennafrídaginn enda þótt af nógu sé að taka.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju eru störf á leikskóla lægra launuð en störf á vinnuvél?