sunnudagur, október 30, 2005

Fór út snemma í morgun og tók góðan hring vestur á nes. Það var samsæti í vinnunni í gær eftirmiðdag sem dróst fram á kvöldið eins og gengur og það var ágætt að ná eftirstöðvunum úr sér með svitanum í morgun. Flaug á hausinn rétt hjá OLÍS stöðinni við Vesturgötuna. Tók smá beygju og uggði ekki að mér. Í sjálfu sér heppinn að meiða mig ekki þegar maður liggur allt í einu kylliflatur á götunni.

Þrúða frænka hefur verið að vekja athygli á kjörum gamla fólksins á Sólvangi í Hafnarfirði að undanförnu. Þetta er náttúrulega fyrir neðan allar hellur að hrúga fólki þarna inn eins og drasli í yfirfullan bílskúr og síðan vonast kerfið eftir því að þetta leysist af sjálfu sér. Það er nauðsynlegt fyrir því sem ráða hverju sinni að muna eftir því að gamla fólkið hefur byggt grunninn undir það þjóðfélag sem við búum við í dag.

Sé og heyri af og til í frambjóðendum sem telja að ungur aldur og reynsluleysi sé mjög gott vegarnesti til að fara að stjórna ríki og borg. Þeir segja það kannski ekki svona heldur færa þetta í einhvern annan búning en sama er, þetta er inntakið þegar verið er að færa rök fyrir því að almenningur eigi að velja einhevrja til ábyrgðar. Í mínum huga er ákveðin reynsla forsenda þess að hægt sé að ætlast til þess að einstaklingar getir skilað einhverri vinnu af viti í almannaþágu hjá ríki eða sveitarfélögum. Sjóndeildarhringurinn mótast yfirleitt af reynslunni. Því sem reynslan er minni því þrengri er sjóndeildarhringurinn. Ég tengi á milli umræðuna um gamla fólkið og kröfuna um að almenningur eigi að greiða barnapössun fólks með skattpeningum sínum. Á norðurlöndunum er almennt talið að það sem megi flokka undir kennslu í leikskólum hjá börnum á aldrinum 2 - 5 ára gömlum taki svona 45% - 60% af þeim tíma sem krakkarnir eru í leikskólanum. Afgangurinn fer í almenna gæslu og vistun. Hér borga foreldrar almennt um 33% af heildarkostnaði við rekstur leikskóla. Þeir ættu í raun að greiða meira ef hlutfallið milli vistunar og þess tíma sem hægt er að segja að fari í fræðslu ætti að tengjast gjaldinu. Enda þótt einhverjir segi að lög um leikskóla segi að allur tími á leikskólanum flokkist sem kennsla, þá vita allir sem til þekkja að það er auðvitað ekki rétt.

Ég set þessa um ræðu í samhengi við umræðuna um gamla fólkið. Menn skirrast ekki við að heimta að almenningur greiði æ meir fyrir sérhagsmuni barnafólks (rétt að gleyma ekki fæðingarorlofi karla) á sama tíma og öldruðu fólki er hrúgað saman í herbergi við algerlega óviðunandi aðstæður. Þetta er náttúrulega spurning um hvaða hagsmunahópar eru í betri aðstöðu til að láta í sér heyra.

Jói benti mér á mikla auglýsingu frá BT sem var að opna nýja búð í Smáralind og auglýsti í því sambandi mikla verðlækkun á ýmsum tækjum og tólum. Til dæmis var tölva með 1,7 GH örgjörva, 512 MB innra minni og 80 GB diski og 17" skjá auglýst á 129 þúsund og sgt að afslátturinn væri 85 þús. Hún hefði sem sagt átt að kosta um 215 þúsund krónur. Svona tölvumeð sama búnaði kosta um 1200 dollara í Bandaríkjunum. Í íslenskum krónum er það rúmar 70 þúsund kr. Maður hefði sem sagt 145 þúsund upp í verslunarferð til Bandaríkjanna ef maður myndi kaupa tölvuna þar og flytja hana heim. Tollar og skattar gætu verið um 40.000 kall. Restin væri hagnaður. Þvílíkt bull. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Engin ummæli: