miðvikudagur, október 12, 2005

Fór á myndakvöld hjá Ferðafélaginu í kvöld. Oft eru skemmtilegar frásagnir með myndum frá alhygliverðum slóðum. Í kvöld var farið yfir ferð á Hvannadalshnjúk þann 14. maí sl. yfirlit um Torfajökulssvæðið, Hornstrandaferð um Reykjafjörð og Furufjörð, gönguferð um Vonarskarð og síðast gönguferð um Héðinsfjörð og Hvanndali. Gott kvöld hjá þeim ferðafélagsmönnum.

Umræðan um Hafnarfjarðarsysturnar hélt áfram í kvöld í sjónvarpinu. Mér fannst magnað að sjá þær systur í viðtalinu í gærkvöldi. Magnað að nokkurt barn skuli sleppa óbrjálað í gegnum svona uppvöxt. Það getur varla verið auðvelt fyrir þá sem hefðu átt að ganga fram fyrir skjöldu að átta sig á því þegar sagan er lögð á borðið hve umhverfið brást börnunum.

Hvernig er aftur samfélagið og viðbrögð þess? Þegar barnaverndarnefndir taka á málum barna sem eiga undir högg að sækja þá verður allt vitlaust, sjónarmið þerra sem verða fyrir aðgerðum barnaverndarnefnda er haldið fram af offorsi í fjölmiðlum og mynd almennings af barnaverndarnefndum er að þar sé á ferðinni afskiptasamt fólk sem vinni eftir óeðlilegri afskiptasemi af högum náungans. Hagsmunir barnsins er sjaldnast ef nokkruntíma tekið inn í umræðuna því allri sem eiga að gæta hagsmuna þess eru bundnir trúnaði. Í þessu sambandi bera fréttamenn mikla ábyrgð og falla oft á þessu prófi eins og svo mörgum öðrum. Hvað sem hver segir þá hafa fjölmiðlar gríðarleg áhrif á viðhorf almennings gangvart umhverfi sínu að mínu mati og margra annarra. Ég man t.d. eftir Svefneyjarmálinu sem kom upp fyrir tæpum 20 árum. Þá fengu hin ákærðu feit viðtöl í blöðum sem voru meðal annars notuð til að rakka niður barnið sem þau voru ákærð fyrir að hafa misnotað. Ég man einnig eftir öðru máli sem kom upp á svipuðum tíma þar sem hinn ákærði fékk mikið pláss á síðum dagblaðs til að fegra og útskýra sína hlið á málinu. Ég þekki einnig dæmi um undarleg viðhorf skólafólks þar sem grófu og afar harkalegu einelti var hafnað af hörku af skólayfirvöldum þegar foreldrar vildu að eitthvað væri gert í viðkomandi máli því ekki mátti falla blettur á skólann. Þannig er nú það að fólk vaknar oft upp með andfælum þegar sannleikanum er nuddað framan í það og ésúsar sig og spyr hvernig í ósköpunum svona getur gerst en setur svo kíkirinn fyrir blinda augað aftur.

Sá í morgun frétt í Aftonblaðinu sænska þar sem sagt var frá því að 13 ára sænskur strákur hefði nýlega framið sjálfsmorð eftir stöðugt einelti í skólanum um sex ára skeið. Foreldrar hans höfðu reynt að fá viðbrögð innan skólans og innan bæjarkerfisins til að bregðast við vandanum en án árangurs. Strákurinn hafði síðan smám saman hætt að segja þeim frá ástandinu til að valda þeim ekki frekari áhyggjum en orðið var og síðan kom að því að hann leysti málið sjálfur. Nú sitja foreldrarnir og spyrja sjálfan sig: Af hverju fluttum við ekki í burtu meðan það var hægt?

Engin ummæli: