þriðjudagur, október 25, 2005

Konurnar á okkar vinnustað fóru úr húsi í gæri og héldu niður í bæ. Þar var gríðarlegur fjöldi saman kominn. Sumir karlanna létu fara vel um okkur á kaffistofunni og fylgdumst þar með dagskránni.
Góðu hliðarnar: Það var mikil þátttaka í deginum víða um land (hver vill ekki fara í frí dagpart?) og vafalaust góð stemming þar sem þær söfnuðust saman. Hvati fyrir konur að ræða sín mál og stappar í þær stálinu þar sem á þarf að halda.
Ræða Amil (fulltrúa erlendra kvenna) var mjög góð og þar var talað út frá hjartanu um þau vandamál sem þesar konur (og vafalaust karlarnir líka, af hverju gleymast þeir alltaf) þurfa við að stríða hérlendis.
Það sem mér fannst á vanta: Fundurinn var á vitlausum stað. Hverjum dettur í hug að setja fund af þessari stærðargráðu á Ingólfstorg? Enda þótt ekki hefðu komið nema 25.000 hefði það verið alltof alltof lítið. Niðurstaðan var sú að það sáu ekki nema sumar og heyrðu einnig ekki nema sumar því þyrlan var alltaf að fljúga yfir og truflaði þannig hvað fundarmenn heyrðu. Dagskráin var framkvæmd svona og svona að mínu mati. Hverjum dettur í hug að það blási einhverjum baráttuhug í brjóst að berja innan vask (sérstaklega þar sem flest heimili eru komin með uppþvottavél)? Reyndar ekki mitt en þar sem ég þvæ yfirleitt upp sjálfur eftir matinn þá er mér sama. Á svona fundi eiga þeir sem flytja texta helst að kunna hann utanbókar eða því sem næst því upplestur af blöðum missir marks ef það er ekki þeim mun betur gert.

Mér fannst vanta á fundinn einhvern ræðumann eins og Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur sem sló í gegn á fundinum fyrir 30 árum. Hún talaði þannig að það var ekki hægt annað en að hlusta. Nú talaði enginn sem hafði viðlíka áhrif á mig en það er bara mitt sjónarmið og ekki ætla ég að leggja þeim orð í munn sem á fundinum voru.

Fór góðan hring í hverfinu í gærkvöldi í frekar köldu en góðu veðri.

Engin ummæli: