Er að horfa á veðrið í sjónvarpinu. Það er bara vetrarspá fyrir norðan uppúr helgi með snjókomu og leiðindum. Hvurslags er þetta og október bara nýbyrjaður. Þetta ætlar að verða hryssingslegt haust.
Þó eru líkur til að það verði þokkalegt veður á laugardaginn en þá verður Þingstaðahlaupið haldið. Farið verður af stað frá Þingvallakirkju kl. 9.00 og hlaupið í genum Almannagjá og síðan sem leið liggur til Reykjavíkur og farið dagfari og náttfari þar til útihurð Alþingis er náð. Nokkrir ætla að fara og hlaupa alla leið. Öðrum áhugasömum er bent á að það er mjög vel þegið ef einhverjir slást í hópinn á leiðinni og koma með lengri eða styttri spotta. Reiknað er með um 5 klst í þetta samtals þannig að það er hægt að stilla sig inn á hlaupið með þennan tíma í huga.
Rakst á skemmtilega grein á vefnum sem birtist í UltraRunning Magazine árið 1999. Greinin heitir Childbirth Envy: Why Men Run Ultras?
Þegar þátttakendalistar yfir ultrahlaup eru skoðaðir þá kemur í ljós að meirihluti þátttakenda eru karlar. Skýringin á þessum mun hefur yfirleitt verið sú að barnsfæðingar og umsýsla barna geri það að verkum að konur hafi ekki tíma til að sinna íþróttum vegna þess að þær eru uppteknar við barnaumsýslu.
Höfundar setja fram aðra kenningu í greininni, sem sagt að skýringin á þessum mun sé "barnsburðaröfund" (childbirth envy).
Kenningin felur í sér að karlar hafa þrá til að upplifa sársauka barnsfæðingarinnar en konur hafa enga sérstaka löngun til að upplifa þessa tilfinningu, sérstaklega þær sem hafa þegar fætt börn. Eftirfarandi rök eru færð fyrir kenningunni:
1.Stærstur hluti ultrahlaupara í kvennaflokki hefur ekki fætt barn.
2. Einkenni ultrahlaupara er slæmt minni. Hlauparar sverja þess dýran eið þegar þeir ljúka ultrahlaupi að gera þetta aldrei aftur en ekki líða nema fáir dagar þar til þeir eru farnir að litast eftir nýju hlaupi.
3. Samdráttur í barnsfæðingum í USA sýnir sterka fylgni við aukinn fjölda kvenna í ultrahlaupum sem bendir til þess að upplifun í ultrahlaupum geti komið í stað upplifunar af barnsfæðingu.
4. Eiginkonur og mæður eru yfirleitt mjög gott crew fyrir ultrahlaupara því þær geta nýtt sér reynslu sína af barnsfæðingum til að veita hlauparanum andlegan og líkamlegan stuðning.
Þetta er áhugaverð kenning sem er gott að ræða á löngum æfingum ef umræðuefni skyldi skorta sem verður hins vegar að teljast ólíklegt.
miðvikudagur, október 05, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli