mánudagur, október 03, 2005

Léttur hringur í hverfinu í kvöld. Svolítið farið að rigna en spáir verra veðri á morgun. Veðurfræðingar spá heldur þokkalega fyrir laugardaginn en þá verður Þingstaðahlaupið. Hlaupið verður frá Þingvöllum niður að Alþingi og þeir sem hlaupa alla leiðina fá að snerta útidyrnar á þinghúsinu við leiðarlok. Aðrir mega bara horfa.

Hlustaði á Útvarp Sögu í kvöld. Hef ekki hlustað mikið á þessa stöð eða Talstöðina að undanförnu en tók þó aðeins púlsinn á þeim þegar Baugsumræðan stóð sem hæst. Velti svolítið fyrir mér hvað Jónína Ben. hafi gert á hlut Arnþrúðar Karlsdóttur með hliðsjón af því hvað hin síðarnefnda var tindilfætt út um allan bæ með eitthvað tölvubréf þegar tölvubréfa- og Baugsumræðan byrjaði og sagðist meir að segja eiga fleiri eftir í skúffunni. Í kvöld var komið inn á í einhverjum innhringiþætti að tölvupóstarnir hefðu verið sendir út eftir miðnætti og einhver karl hló illgirnislega og sagði hlakkandi; "Maður veit svo sem í hvaða ástandi hún hefur verið, ha ha ha ha"!! Í gær hlustaði ég á einhvern annann innhringiþátt á þessari sömu stöð og þá var verið að uppnefna JB með einhverjum bjánalegum nöfnum. Nú þekki ég Jónínu Ben ekkert og hef aldrei séð hana en maður spyr hvort séu engin takmörk fyrir því hvað hægt sé að ganga langt í að nota svona fjölmiðla til að rýja fólk ærunni. Það er enginn vandi með svona vinnubrögðum. Er þetta fólk sem vinnur þarna kannski algerir englar gagnstætt öðrum? Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Í kvöld hringdi einhver kona í enn einn innhringiþáttinn á Útvarpi Sögu og talaði við útvarpsstjórann sjálfan. Hún var að kvarta yfir einhverjum Gústafi sem er í öðrum þætti. Konan sem hringdi inn hafði heyrt þáttinn endurtekinn og líkaði alls ekki við þennan Gústaf. Hann væri alltaf að grípa frammí fyrir Hildi Helgu, en þau eru saman í þættinum. Útvarpsstjórinn svaraði konunni og bar nokkuð í bætifláka fyrir Gústafinn. Konan róaðist nokkuð og sagði síðan: "En þetta var nú endurtekinn þáttur, það hefur kannski verið betra þegar hann var frumfluttur?" "Já, það gæti verið" svaraði útvarpsstjórinn.

Varðandi stöðutöku Útvarps Sögu í Baugsmálinu, þá er eins og mig minni að ónefndur Jóhannes hafi reitt af höndum einar 5 milljónir þegar útvarpið var að fara á hausinn fyrir nokkru. Ef þetta er rangt þá verð ég leiðréttur. Æ sér gjöf til gjalda.

Engin ummæli: