miðvikudagur, október 26, 2005

Rósa Park dó í dag, blökkukona 94 ára gömul. Hún hefur líklega valdið meiri straumhvörfum í mannkynssögunni en flestir aðrir með því að neita að standa á fætur fyrir karlmanni. Eftir að hún var dæmd í sekt árið 1955 fyrir að neita að standa á fætur í strætisagni fyrir hvítum karlmanni fóru mannréttindasamtök að veita mannréttindabrotum á svertingjum í Bandaríkjunum meiri athygli og lauk þeirri baráttu með því að slíkur ójöfnuður sem viðgekkst fram til þessa var ekki lengur liðinn innan ríkisins. Það eru oft þessar einföldu symbolsku aðgerðir sem ná meiri árangri en hávaði og upphlaup. Mér er enn í fersku minni vaskgjörningurinn á Ingólfstorgi í gær sem vonandi sem fæstir sáu og heyrðu. Hvað átti svona lagað að þýða inn í umræðu eins og Amal flutti svo vel til fjöldans, þá stöðu sem innflytjendur (bæði karlar og konur) eru í hérlendis? Það getur vel verið að einhverjar listaspírur eða meðvitaðir einstaklingar sem hafa höndlað hinn eilífa sannleika sjái ljósið í svona löguðu en fyrir mér er ansi djúpt á það. Ég er náttúrulega undirlagður af karllægum gildum og karllægu hugarfari þannig að það er kannski eðlilegt að þetta sé ofvaxið mínum skilningi.

Maður heyrir oft á strákum sem eru á unglingsárum að þeir eru dállítið pirraðir út í þessa umræðu. Þeir eru ekki að gera lítið úr umræðunni jöfn laun fyrir sömu vinnu en það er von að þeir spyrji þegar konur ræða mikið um lág laun svokallaðra kvennastétta: Af hverju fá þær sér ekki aðra vinnu? Þetta er spurning sem á fullan rétt á sér. Mér fannst að þegar rektorinn á Bifröst í Borgarfirði fór á flot með þá umræðu að kvenkyns nemendur sem hefðu lokið námi við skólann hefðu 50% lægri laun en karlkynsnemendur í sömu stöðu að það hlyti að mega rekja ástæðuna fyrir þessu til skólans sjálfs eða þannig að hann hefði vanrækt að byggja upp sjálfstraust hjá konunum að námi loknu. Ef þú trúir ekki á þig sjálfur, hver á þá að gera það?

1 ummæli:

Hildigunnur sagði...

ég er bæði kvenkyns og listaspíra en ekki þótti mér nú mikið varið í trommusólóið á vaskinn...