Kláraði að fara með bílinn í gegnum skoðun í dag. Þá er það frá í eitt ár.
Fór í heimsókn til Gunna Jónatans og Rósu seinnipartinn. Þau voru að opna fyrirtæki uppi í Nethyl sem leigir meðal annars út skrifstofuhúsnæði. Þau voru með opnunarboð þar fyrir fjölskyldu og kunningja ásamt þremur svíum og íra sem eru að halda námskeið með þeim á morgun. Það er í tengslum við ráðgjafafyrirtæki sem er að hefja starfsemi hér og Gunni og Rósa stjórna. www.IBT.is. "Yfirsýn skapar hagnað". Byggt upp eftir hugmyndafræði sem írinn mótaði og hefur auðgast á. Þetta er áhugavert og vonandi að það gangi upp hjá þeim.
Maður heyrir voðalegar fréttir frá Pakistan. Þar eru hundruðir þúsunda í bráðri lífshættu eftir jarðskjálftana í byrjun mánaðarins. Þetta er þriðja stóra katastrófan sem hefur dunið yfir á tæpu ári. Flóðbylgjan á Indlandshafi um jólin, fellibylurinn í New Orleans og nú jarðskjálftarnir í Pakistan. Þetta er nú orðið alveg nóg. Þetta kemur manni enn einn ganginn til að hugsa um hve heppinn maður er að búa hér uppi á Íslandi.
Maður veit ekkert hvað maður á að hugsa í sambandi við fuglainflúensuna sem mikið er talað um á síðustu vikum og mánuðum. Það hafa einungis um 50 - 60 í Austurlöndum fjær manns dáið úr einhverju sem kölluð er fuglainflúensa. Hvað búa margir þar? Tveir til þrír milljarðar þegar allt er talið. Fjölmiðlar hafa farið hamförum í umræðu um þessi mál og fullyrðingarnar ganga um að milljónatugir muni farast í Evrópu ef hún komi. Ég verð að segja að maður efast verulega um þessar fullyrðingar. Eitt af því sem olli hinum stóru plágum hér fyrr á árunum var að fólk var veilt fyrir sökum lakari fæðu og verri húsa. Hins vegar er rétt að taka þessa umræðu alvarlega og vera við öllu búinn, en það bætir ekki að skapa einhverja hysteríu.
fimmtudagur, október 20, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli