laugardagur, október 08, 2005

Dagurinn var tekinn snemma í morgun eða uppúr kl. 7.00. Pétur og Halldór komu upp úr kl. 8.00 og svo var haldið upp til Alfreðs. Konan hans keyrði okkur austur á Þingvöll. Við komum þangað rétt fyrir kl. 9.00 í blíðuveðri, logni og frekar björtu. Dálítið frost var eystra, svo mikið að bananinn var orðinn að slepju þegar til átti að taka eftir ca klukkutíma. Við súnnuðum okkur og lögðum svo af stað í morgunblíðunni. Sögur voru rifjaðar frá fyrri hlaupum s.s. að einu sinni við upphaf Þingstaðahlaups þegar einn hlauparinn létti á sér mjög nálægt kirkjunni en sá að athöfninni lokinni að presturinn sat fyrir innan og gaf honum illt auga. Við rúlluðum upp brekkurnar á rólegum hraða s.s. 5.30 - 6.00 mín á km. Einar bróðir Halldórs beið okkar skammt fyrir neðan Kjósarskarðsvegamótin. Alfreð sagði okkur frá Jungfrau hlaupinu svo og æfingum sínum fyrir hlaupið sem hafa vakið verðskuldaða athygli. Við höfðum drykkjarstöð við Skálafellsvegamótin og lögðum stein í minningarvörðu um Gumma Gísla, þann góða dreng og mikla hlaupara. Maður er ætíð minntur óþyrmilega á óréttlæti heimsins þegar leið liggur fram hjá vegamótunum. Léttara var undir færi þegar leiðin lá niður í Mosfellsdalinn. Brátt kom á móti okkur grár jeppapallbíll með hinn ólseiga Svan undir stýri. Hann er nýbúinn að ganga undir aðgerð á seinna hnénu og verður að hafa hægt um sig. Kunnugir segja að það sé jafnvel vissara að fela skóna hans svo hann fari ekki of snemma að hlaupa. Hann var kátur við að sjá okkur og sagðist bíða við Gljúfrastein með vistir. Eftir að hafa drukkið hjá Svan var rúllað áfram. Brátt kom í ljós að þegar spor okkar Pétur og Halldórs þyngdust heldur þá léttust þau hjá hinum, sérstaklega Alfreð sem var léttur sem fugl og naut þar undirbúnings fyrir Jungfrauna. Hann skildi við okkur við íþróttamiðstöð Fjölnis og leið áfram. Pétur rifjaði upp að hann hafði ekki hlaupið svona langt hlaup frá því á Laugaveginum í fyrr. Við lukum hlaupinu léttari í anda en spori upp úr kl. 14.00. Vegalengdin mældist vera 51 km, meðalhraði með stoppum 6,26 mín á km, besti km var 4,16 mín og meðalpúls var 147. Veðrið var eins og best var á kosið, logn, hlýtt og golan heldur í bakið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hleyp Þingstaðahlaupið og er það ákveðinn áfangi eins og gengur. Ég var með myndavélina með mér og tók nokkrar myndir á leiðinni. Lítið ver gert að hlaupinu afloknu en legið uppí sófa og horft á sjónvarpið.
Víkingur/Fjölnir vann Stjörnuna í handbolta í dag. Góð úrslit og óvænt.

P.S.
Við Þjóðmenningarhúsið er stillt upp demo af útliti Tónlistarhússins. Ég efa ekki að þetta verður flott þegar upp er komið og ljósið speglast í speglunum. Mér flaug hins vegar í hug hvílík óhemju vinna það hlýtur að vera að halda þessu hreinu svo möguleikarnir njóti sín. Saltrokið mattar glerið fljótlega ef það er ekki þrifið reglulega. Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að kostnaðurinn við þetta hús er gríðarlegur, svo mikill að það jaðrar við tómt rugl. Byggingarkostnaðurinn atoppar ekki við 12 milljarða því allur undirbúningur, gatnagerð, uppkaup húsa og annað þess háttar er þar fyrir utan. Svo hafa nýbyggingar hjá ríki og borg þann undarlega eiginleika að fara yfirleitt fram úr kostnaðaráætlun. Það virðist hinsvegar ekki mega tala um byggingarkostnaðinn því menningarelítan er svo óskaplega hrifin. Ein mjóróma rödd heyrðist hinsvegar í Mogganum um daginn sem hvíslaði að um 90% af öllum tónleikum yrði að fara fram annarsstaðar en í musterinu því það væri ekki pláss fyrir þá stærð tónleika sem algengastir eru og mest sóttir. Arkitektinn sagði að það mætti redda þessu. Redda þessu!!!? Er húsið ekki hannað með hliðsjón af þörfum allra eða bara sumra? Er ekki búið að kortleggja þörfina?

Spyr sá sem ekki veit og fer ekki á sinfóníutónleika, kammertónleika, nútímatónleika eða hvað þessi tónlistarmenning heitir öll sömul. Ég fer hins vegar á rokktónleika og þess háttar lágmenningu.

Engin ummæli: