föstudagur, október 07, 2005

Tók hringinn út á Eiðistorg í kvöld. Góður túr í góðu veðri sem var miklu betra en veðurspáin sagði fyrir um í gær. Veðurfræðingar eru ekki alheilagir. Man eftir Sigga storm fyrir skömmu þar sem hann var spurður um ástæðu þess að svo margir kröftugir fellibyljir kæmu á land við Flórídaflóann þessar vikurnar. Siggi svaraði að bragði: "Það eru gróðurhúsaáhrifin sem hitar sjóinn og veldur þessum miklu fellibyljum" Ég sá síðar línurit þess efnis að miklu miklu fleiri fellibyljir af gráðunni 5 hefðu komið á land á þessum slóðum á árunum fyrir rúmum 100 árum en hefðu gert á síðustu 5 - 10 árum. Ekki voru gróðurhúsaáhrif á ferðinni þá. Svona getur þetta verið. Það er erfitt að treysta neinum nú til dags, sérstaklega fréttamönnum.

Talandi um fréttamenn, þá hlustaði ég á fréttir kl. 18.00, kl. 1830 og kl. 19.00 á meðan ég var að skokka Eiðistorgshringinn. Í öllum þessum fréttatímum var sagt frá ákvörðun skólameistarans við VMA að taka upp samstarf við lögregluna á Akureyri um að koma fyrirvaralaust í heimsókn með fíkniefnahundinn í húsnæði VMA. Þessi ákvörðun er vafalaust tekin að gefnu tilefni í baráttunni við glæpamenn. Á Stöð 2 og í Ríkissjónvarpinu var umfjöllunin fagleg og efnislega jákvæð gagnvart ákvörðun og stefnu skólameistara en í ríkisútvarpinu var samúðin öll með glæpamönnunum því fréttamanninum lá afar mikið á að koma að spurningunni "Er þetta ekki ólöglegt?". Hvað á maður að halda?

Ég keypti mér nýlega bókina Kommúnisminn eftir Richard Pipes. Í henni er farið yfir sögulegt ágrip af framkvæmd kommúnismans í gegnum áratugina á síðustu öld. Mjög fróðleg lesning og nauðsynleg lesning fyrir alla að mínu mati því þótt kommúnisminn hafi fallið eins og spilaborg í Austur Evrópu fyrir rúmum 15 árum síðan þá er fólki enn í dag nauðsynlegt að átta sig á hvílíkar ofboðslegar hörmungar þetta stjórnskipulag hefur leitt yfir þær þjóðir þar sem það náði fótfestu. Það var fjöldi fólks sem hafði hér áður þá trú að þetta væri hið nýja ríki þar sem allir væru jafnir og nytu arðs vinnunnar. Maður skilur almenning sem hafði ekki möguleika á að skoða framkvæmdina með eigin augum og trúðu á þessa útópíu en maður skilur verr þá stjórnmálamenn og menntamenn sem ferðuðust iðulega til þessara landa og höfðu tækifæri til sjá innviðina og framkvæmdina með eigin augum eða námsmenn sem dvöldust í þessum löndum og komu síðan heim og boðuðu fagnaðarerindið. Ég man enn eftir varðturnunum við landamæri A- og V Þýskalands þar sem varðmenn með byssur gættu þess að fólkið slyppi ekki vestur yfir.

2 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

Hvaða glæpamönnum? Dílerum eða neytendum? Hvort er líklegra að voffi finni?
Nú er ég grænn í þessu, en veit þó að á námsárum mínum í Bretlandi var almennt talið að um 75% háskólanema hefðu einhvern tímann prófað eitthvað ólöglegt. Það er ansi fjölmennur glæpamannahópur.
En það má þó segja yfirvöldum til varna að það er varað við og samkvæmt fréttinni á eingöngu að fara á matsal. Fiktarar munu vonandi passa sig. Þarna verður því væntanlega aðeins um fælandi aðgerðir að ræða.

Björn Friðgeir sagði...

Allt saman góð rök, vil bara benda á að helmingur nemenda og líklega rúmlega það er yfir 18 ára aldri, sem er lögaldur, og upphafsaldur í háskóla í Bretlandi, þannig að samanburðurinn er til staðar.
Ég held að minn punktur í þessu sem öðru er að brot á friðhelgi einkalífs mega aldrei vera framkvæmd nema að yfirveguðu ráði og þannig að öll rök með og á móti séu dregin fram.