sunnudagur, október 30, 2005

Fór í morgun niður í Laugar í góðu veðri en nokkuð köldu. Síðan var hlaupið inn í Elliðaárdal, út að Nauthól og þaðan niður í Laugar aftur og svo heim. Svona 19 km í það heila. Það var nokkuð hált svo maður varð að fara varlega.

Horði aðeins á Silfur Egils þegar heim var komið. Það var nokkuð óvanalega hreinskiptin umræða í Silfrinu þennan daginn. Of oft er þetta eitthvað frasalið hjá Agli sem er ekki mjög áhugavert að horfa á. Bjarni Harðarson ritstjóri af Suðurlandi talaði tæpitundulaust um það sem hann kallaði sjúkdómavæðingu og aumingjagæsku í samfélaginu. Fólk væri í vaxandi mæli farið að reyna að leita inn í örorkubætur ef minnsti möguleiki væri á til að komast inn á forsjá hins opinbera. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar reyndu strax að snúa þessu upp í að Bjarni væri á móti öryrkjum sam var vægt sagt eins og ómerkilegt Morfístrix. Þetta er því miður of mikið til í þessu hjá Bjarna. Það er sama þróunin að gerast hér eins og er þegar staðreynd á hinum Norðurlöndunum. Þar er undarlega stór hluti fólks sem er á vinnualdri kominn á framfæri hins opinbera. Ég þekki persónulega svona dæmi þegar ungt fólk kemst upp með það árum saman að dýfa ekki hendi í kalt vatn heldur lifir á opinberu framfæri og finnst það bara þokkalegt. Það er náttúrulega ein afleiðing mikilla breytinga í samfélaginu að ungt fólk elst ekki eins upp við vinnu og áður. Engu að síður er það staðreynd að duglegir krakkar finna alltaf leiðir til að bjarga sér.

Ég kynntist þessum sjónarmiðum fyrst þegar ég fór til Kúbu fyrir 25 árum í vinnuferð. Við unnum þar meðal annars við að tína appelsínur og mandarínur og vorum uppi í stigum við tínsluna. Síðan voru vinnufundir á miðvikudögum og laugardögum. Á slíkum fundi tóku norðmennirnir sem við unnum með það upp að það væri nokkuð alvarlegt að okkur hafi ekki verið kennt að nota stigana. Það væri ábyrgðarhluti að setja óvant fólk upp í stiga án þess að kenna þeim fyrst að nota þá. Okkur íslendingunum fannst þetta svo fyndið að við gerður grín að þessu. Síðar þegar ég fluttist til Svíþjóðar þá áttaði ég mig á hvað samfélögin þarna voru gjörólík því sem maður hafði alist upp við. Það var algengt að fólk sem var að klára háskólanám hafði aldrei unnið neitt. Sumurin voru notuð til að ferðast og leika sér því það var svo jobbigt í skólanum. Þetta sjónarmið er að færast hingað upp í vaxandi mæli.

Engin ummæli: