Er með nettan bjánahroll. Lagði áðan í að horfa á hinn íslenska Bachelor. Hálfur þáttur dugði mér. Ætla einnig að taka hús á Silvíu Nótt í kvöld til að vera samræðuhæfur.
Hætti mér inn á jarðsprengjusvæði í gærkvöldi, málefni samkynhneigðra og giftingar þeirra og annarra eða ekki giftingar. Fyrst maður er kominn út á bersvæði er ekkert að gera annað en að feta sig áfram. Ég sagði ekki frá einu atriði í gærkvöldi sem varðar frænda minn heitinn og gerði það viljandi. Hann og konan hans áttu ekki börn saman. Ef þeim hefði verið barna auðið hefðu engin vandamál komið upp við andlát hans varðandi erfðamálin en fyrst að þau voru barnlaus, þá fór allt í baklás af hálfu yfirvalda. Þarna er greinilega verið að mismuna fjölskylduformi burtséð frá giftingum eða erfðaskrám. Ég sé ekki að maður eigi að sætta sig við það. Ég geri ráð fyrir að það ráði álíka hlutir því að fólk ákveður að deila lífi um áratugi óháð því hvort viðkomandi eignist börn eða ekki og því á erfðaréttur að vera hinn sami.
Þegar maður horfir hlutlaust á giftinguna sem slíka þá er hún nú á dögum að því ég fæ best séð einungis spurning um form um sameiginlega ábyrgð á eignum, framfærslu, forsjá barna ef þau eru fyrir hendi og form erfða. Ef einhver kann betri skilgreiningu þá er hún þegin með þökkum. Hvað kirkjan er að skipta sér af þeim gjörningi skil ég ekki alveg. Gamla formúlan um að það sem drottinn hefur sameinað getur enginn sundur skilið er ekki alveg að virka eða það sýnist manni. Það er annað en hjá kaþólskum, þar er skilnaður bara bannaður. Þannig hefur kirkjuleg aðkoma að hjónabandi í Lútherstrú enga sérstöðu. Hjónaband var síðan hér áður valdastofnun karla. Ég minnist þess að mamma sagði einhvern tíma að þegar sýslumaðurinn var að lesa þau saman fyrir rúmum 50 árum þá munaði minnstu að hún hætti við allt saman þegar sýsli sagði að hún ætti að vera manni sínum undirgefin. Þessi klásúla er víst fyrir bí á seinni tímum það ég best veit og sem betur fer.
Ef formlegur kaupmáli eða erfðaskrá gerir sama gagn og hefur sama gildi og formlegt brúðkaup og formlegt brúðkaup hefur ekkert fram yfir einfaldan samning, af hverju er þá verið að gera einfalda hluti flókna. Vegna hvers er þá verið að blanda kirkjunni inn í þetta dæmi? Fólki finnst kirkjubrúðkaup vafalaust vera hátíðlegt (ég hef ekki prófað það sjálfur) og allt í lagi með það en annan tilgang hefur það ekki það ég best sé. Sérstaklega vegna þess að það er jafnauðvelt að slíta gjörningnum eins og að koma honum á. Er eitthvað öðruvísi að bjóða til brúðkaups (brúðkaup, hvernig ætli það orð hafi myndast?) eftir að hafa skrifað undir erfðaskrá eða kaupmála heldur en að gera það eftir að prestur hefur lesið upp tilheyrandi texta? Ég geri ráð fyrir að svo sé því ella sækti samkynhneigt fólk það ekki svo fast að fá rétt til kirkjulegrar vígslu eins og gagnkynhneigðir hafa en léti sér erfðaskrár- og/eða kaupmálaformið nægja.
fimmtudagur, nóvember 17, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Reyndar hefði þetta verið næstum jafnslæmt fyrir ekkju frænda þíns, því börnin hefðu erft, hún ekki. Manstu eftir dæminu um sjómannsekkjuna sem ekki var gift? Var fyrir nokkrum árum og formsins vegna þurfti hún að borga börnum sínum ófjárráða húsaleigu. Í kjölfarið kom giftingarhrina
Ég er alveg sammála þessum pistli hvað form giftingar varðar. Hjónaband á að vera aðskilið, það á að þurfa tvær athafnir (smbr BNA og Bretland eftir því sem ég man best), kirkju og sýslumanns.
Hjónaband er flóknari samningur en erfðaskrá, satt, en kaupmála held ég sé ekki hægt að gera án hjónabands, ég get ekki komið á fót samskonar sameignar fyrirkomulagi á einkaeigum mínum og hjónaband gerir með neinum öðrum hætti. Þess vegna vilja samkynheigðir hjónaband. og þess vegna er einfaldara að hafa hjónabandssamninginn en vera að klúðra saman erfðaskrá og kaupmála og öllu öðru sem þyrfti að gera til að jafna allt við hjónabandið.
Að ekki sé minnst á að hjónaband er loforð um að arka saman æviveginn. Það er nú ekki lítið loforð,
það eina sem ég segi er það að það er ekki hægt að ákveða eftirá fyrir fólk að það hafi jú verið gift og erfirnar eigi jú að vera öðruvísi. Það er engin réttindi brotin. Þarna er bara um slugsuskap og hugsanleysi tveggja aðila að ræða, því miður. Ég skil það vel að þetta hafi verið erfitt dæmi, en þarna er persónulegt mál, ekki lagalegt,
Lög sem ættu að ná yfir svona yrðu yfirgengilega flókin og "ef og kannske og ..". Svo ég spyrji aftur, hver á að ráða? Eiga erfingjar að segja, nei ég vil ekki pening? Þarf samþykki allra? Flestra? Á ríkið að grípa inní? Eftirlitsstofnun Næstumþví Hjónabanda?
Nei, fólk sem býr saman í fjörutíu ár á að hafa vit á að hafa svona í lagi, þú fyrirgefur.
ó. Var þetta dæmi þarna um sjómanns ekkjuna bara einhver misskilningur?
Getur eftirlifandi maki úr óvígðri (usss... slæmt orð, ætti ekki blanda trúnni inn... óhjónabandslegri? staðfestri?) sambúð erft ef um börn er að ræða?
Skrifa ummæli