þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Ég held ég fari að hætta að velta fyrir mér málefnum samkynhneigðra í bili. Ég hef ekki verið mjög upptekinn af þeirri umræðu gegnum tíðina en það er svo að þegar umræðan í fjölmiðlum er mjög mikil eins og hún hefur verið undanfarið þá verður það til þess að maður fer að velta ýmsum vinklum fyrir sér sem kannski eru ekki alltaf teknir fyrir.

Íþróttafréttir hafa einnig verið fyrirferðamiklar undanfarið. George Best er t.d. dáinn. Hann skipar sérstakan sess í hugum margra áhugamanna um fótbolta. Hann var ein fyrsta superstjarnan á fótboltavellinum og líklega sú stærsta. Pele og Eusibio voru einnig mjög litríkir á þessum árum svo dæmi séu nefnd. Það sannaðist á Best að það fer ekki alltaf saman gæfa og gjörfileiki. Eða er það kannski gæfa að geta gert það sem maður vill og langar til meðan andinn og líkaminn þolir það og svo er þetta bara búið? Kertið brennur fyrr upp þegar lifað er hratt. Það hefur hver sinn takt í þessu en víst er að margir vildu hafa verið í sporum Best um áraraðir, hvaðs em um síðustu árin má segja. Snilli Best´s varð til þess á sínum tíma að margir fóru að halda með Man. Utd. og gera það enn. Svo er t.d. um undirritaðan.

Ég man eftir öðru dæmi sem maður gleymir ekki. Nacka Skoglund var sænskur fótboltasnillingur sem var fæddur um 1930. Hann varð snemma atvinnumaður á Ítalíu eða um 1950, lék með bestu liðunum þarlendum og þótti alger snillingur. Hann var lykilmaður í sænska landsliðinu sem fékk silfurverðlaun á HM 1958 þegar Brassarnir og Pele komu fyrst fram á sviðið af alvöru. Hann missti síðan fótana þegar fótboltatímanum lauk, kunni ekki annað en spila fótbolta og gat ekki unnið launavinnu, hafnaði í óreglu og andlegum þrenginum og dó fyrir aldur fram 42ja ára gamall. Nafn hans lifir hins vegar í sænskri fótboltasögu.

Íslenska handboltalandsliðið lék tvo og hálfan góðan leik við norðmennina um síðustu helgi. Gaman er að sjá hvað Viggó er að bræða saman gott lið úr góðum einstaklingum. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur í alvöru keppni. Menn eins og Guðjón V., Snorri Steinn og Einar Hólmgeirsson eru yfirburðamenn. Handboltinn er manni kannski sérstaklega hugstæður því Jói og félagar hans í 3ja flokki Víkings eru sífellt að færast nær alvörunni. Maður er búinn að fylgjast með þessum hóp í sex ár eða síðan þeir voru tíu ára guttar þegar við komum að norðan. Hópurinn hefur haldið mjög vel saman og er öflugur. Manni finnst ósköp stutt síðan þetta voru bara litlir guttar sem felldu tár ef leikurinn var harður úr hófi fram en nú eru þetta miklir jaxlar sem flestir hafa vaxið manni yfir höfuð og bregður hvergi við átök eða annað sem fylgir alvöru handbolta.

Sá í Mogganum í morgun smá umfjöllun á gagnrúnan hátt um íþróttafréttamennsku í fjölmiðlum hérlendis. Ég tek undir hana, hún mótast oft um of af áhugamálum íþróttafréttamannanna sjálfra. Manni finnst t.d. pirrandi að sjá sífelldar ekki fréttir um að einhverjir leikmenn hafi ekki spilað með liðum sínum, ekki skorað mörk og svo má áfram telja á meðan ekki tekst að fá sömu fjölmiðla til að birta fréttir af árangri hérlendra langhlaupara eða af starfsemi hlaupafélaga. Er það ómerkilegra að hlaupa maraþon heldur en að komast ekki í lið? Fréttamatið er oft þannig finnst manni. Viðkomandi íþróttafréttamenn ættu að reyna að hlaupa maraþon sjálfir, þá færu þeir kannski að bera aðeins meiri virðingu fyrir þessari íþróttagrein. Umfjöllunin skiptir vitaskuld máli. Ég sé t.d. ekki að Powerate hlaupaserían sé eitthvað ómerkilegri en hvað annað eða mars- og haustmaraþonin.

1 ummæli:

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Sæl Bibba.

Lyfjafræðingurinn á ekki orð yfir ruglinu í kallinum að hrúga í sig öllu þessu C-vítamíni. Engu að síður þá því sem næst flaug hann í gegnum hlaupið nær sextugur að aldri. Ég þarf að skrifa honum og heyra aðeins beetur í honum um hvort hann hafi fengið einhverjar aukaverkanir af þessum megaskömmtum. Ég er hins vegar ansi hræddur um að maginn hafi verið í verra ásigkomulagi í mörgum sem ekki tóku svona skammta.

G