Skoðaði stóru kortabókina á laugardaginn. Hún er glæsilega upp sett og er vafalaust mikill fengur að henni á margan hátt. Fletti upp á mínum gamla hreppi Rauðasandshreppi til að skoða uppsetningu og frágang. Maður getur helst metið það eftir því sem maður þekkir best til. Ég var ekki alveg ánægður með það sem ég sá. Bæjarröð í þessum litla hreppi var vitlaust sett upp á þremur stöðum. Ég var heldur ekki sáttur við örnefnin. Rauðisandur heitir Rauðisandur í nefnifalli en ekki Rauðasandur. Það örnefni var alla vega aldrei notað í mínum uppvexti. Hann heitir Rauðisandur vegna þess að sandurinn er rauður en ekki vegna þess að sandurinn sé úr einhverjum rauða. Í annan kant er ég ekki sáttur við bæjarnafnið Máberg og örnefni því tengd. Bærinn hét og heitir Móberg í öllum opinberum gögnum og skrám. Heitið Máberg var einungis notað af tveimur fjölskyldum það ég man eftir. Mér fannst það alltaf heldur skrítið en á seinni árum sé ég ákveðin rök fyrir því vegna fýlsins í fjallinu fyrir ofan bæinn. Sama er.
Ég treysti þeim upplýsingum sem eru í bókinni miklu síður vegna þessara vankanta sem ég sá strax á því sem ég fletti upp þarna í einni skothendingu. Ég hélt satt að segja að svona verk væri lesið það vandlega yfir, ekki síst sem það á að byggja á opinberum kortagrunni sem á að vera margyfirfarinn og því alveg skotheldur.
miðvikudagur, nóvember 23, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þessi Rauðasandur?
Örnefni eins og þetta, svo sem Rauðalækur í Rangárvallasýslu, draga nafn sitt alla jafna af mýrarrauða, þeas nafnorðinu rauði, ekki lýsingarorðinu rauði og þess vegna eignarfallsending nafnorðs á 'rauða'
Flott mynd.
Af lestri mínum á vefsíðunni sem ég *ætlaði* að vísa á... úps...
Þessi hér: http://www.vestfirdir.is/index.php?page=raudasandur
gerði ég mér grein fyrir að ekki var þetta mýrarrauði, en engu að síður er vel opið að þetta nafn sé myndað á sama hátt, að nafnorðið rauði hafi verið notað, amk eru menn missammála um hvernig á að skrifa þetta.
Ekki ætla ég að hætta mér nær í innansveitar og héraðsdeilur um þetta!
Sæll frændi, gaman að hafa fengið nasaþef af síðunni þinni. Kíki á hana við og við, alltaf gaman að sjá hvað ættingjarnir eru að bralla! Vildi nú bara styðja þig með Rauðasand....auðvitað heitir hann Rauðisandur og ekkert annað. Ótrúlegar ambögur sem birtast í bókum og að því er maður telur nokkuð vönduðum útgáfum. Hef víðar séð nafngiftina Rauðasandur og læt það alltaf ergja mig.
Bestu kveðjur, Íva frænka
Skrifa ummæli