laugardagur, ágúst 20, 2005

Í dag var ferðadagur. Fundir búnir og tækifærið notað til að sjá sig um, því fæstir hafa komið hingað áður. Við erum hér starfsmenn hagdeilda norrænu sveitarfélagasambandanna á árlegum fundi. Í morgun var geimtannsóknastöðin Esharge heimsótt. Hún hefur verið starfrækt frá árinu 1966. Í upphafi var meginmarkmið stöðvarinnar geimrannsóknir en hafa á seinni árum færst í auknum mæli yfir í veðurfarsrannsóknnir. Það er merkilegt að sjá hér újti í víðáttunni hátæknistöð í geimrannsóknum þar sem vinna tugir og oft hundruð alþjóðlegra sérfræðinga á þessu sviði. Á stöðinni Esrange er skotið upp stærstu eldflaugum í Evrópu. Þær eru hlaðnar með 10 tonnum af sprengiefni. Þar er einnig loftbelgir settir á loft til norðurljósarannsókna og fleiri hluta. Skóli í geimrannsóknum er staðsettur skammt frá stöðinni. Þar munu nema um 100 erlendir nemendur næsta vetur.

Eftir hádegið heimsóttum við íshótelið í Jukkesjervi. Ég verð að segja að ég hef sjaldan orðið einn hrifinn af neinu verkefni í ferðabransanum sem ég hef séð. Það má kannski jafna Bláa lóninu við það og hvalaskoðuninni á Húsavík. Jukkesjervi er í huga hins venjulega svía á enda veraldrar, smá þorp þar sem ekkert er um að vera. Þeir höfðu byggt upp nokkurn túrisma í tengslum við siglingar á Torneánni sem var fyrst og fremst sumartúrismi. Dálítil þyrping af sumarhæúsum hafpði risið í tengslum við það. En svo kom veturinn og þá slokknaði á öllu í huga heimamanna. Þeir voru samt að reyna með hundasleðaferðir sem grunn fyrir vetrartúrisma. Svo er það fyrir 16 árum að í einni slíkri ferð var yfirbókað í húsnum. Þeir höfðu byggt lítið snjóhús har sem var sett upp sýning til að brydda upp á einhverju nýju. Í öngum sínum yfir yfirbókuninni segir einhver: "Setjum þau bara í snjóhúsið!" "Það er ekki hægt sagði annar". "Jú, bara nóg af skinnum undir og yfir og þá er þetta í lagi." Þetta var gert og viðkomandi gestir voru svo himinlifandi af upplifuninni að sofa í snjóhúsi að fólkið í ferðaþjónustunni fór að velta fyrir sér hvort þetta væri eitthvað til að þróa frekar.

Næsta vetur var byggt hús með bar og sýningu úr snjóskúlptúrum og nokkrum herbergjum og byrjað að reyna að láta vita af sér. Það gekk hægt í upphafi því það höfðu ekki margir, sem áttu peninga, trú á að það væri hægt að gera eitthvað í Jukkesjervi. Forstöðumaðurinn ákvað að reyna við Absolut vodkann sem sponsor því honum fannst hann heyra vel saman við íshótelið. Honum var ekki einu sinni svarað af hálfu vodkafyrirtækisins. Þá tóku þeir myndir af ísbarnum með þjónustufólki og viðskiptavinum og sendu þær til um 1000 blaðamanna í Evrópu og USA. Árangurinn var eins og jarðskjálfti. Allir vildu heyra meira af ísbarnum. Umfjöllun í fjölmiðlum óx gríðarlega. Forstöðumaðurinn kom m.a. fram í erlendum sjónvarpsþáttum. Ferðamenn fóru að koma. Einn daginn hótelið svo símtal. Í símanum var framkvæmdastjóri Absolut vodkans sem spurði: "Megum við vera aðalsponsör hótelsins?"

Í dag er veturinn aðalauðlind héraðsins. Til hótelsins koma um 15.000 gestir á tímabilinu frá miðjum desember fram í apríl. Gestum er ekið á hundasleðum frá Kiruna flugvelli að hótelinu, um 15 km. leið. Þetta er alvöru. Herbergin kosta frá 28.000 nóttin upp í 65.000 nóttin. Þá er innifalin hurð fyrir herbergið!!! Í þeim er um -5C hiti. Bygging hótelsins hefst í byrjun nóvember og verður að vera lokið fyrir miðjan des. Kirkjan skal vera klár á aðfangagdag. Við bygginguna er unnið jafnt með stórvirkum vinnuvélum og fíngerðum höndum. Þeir hafa byggt frystihús til að geta geymt ísblokkir frá fyrra vetri til að geta flýtt fyrir sér. Í frystihúsinu er uppsett ísskúlptúrasýning og ísbar þannig að einnig sé hægt sé að taka á móti gestum á sumrin. Það vinna um 60 manns við byggingu hótelsins. Listamenn frá öllum heimshornum koma og vinna við skreytingar. Um 250 manns vinna við hótelið yfir veturinn. Upppantað er allan næsta vetur. Við hótelið er einnig byggð kirkja. Biðraðir eru eftir að gifta sig og skýra börn. Að sögn heimamanna hefur internetið skipt sköpum við kynningu á hótelinu.

Síðustu þrjú ár hefur verið sett upp leikhús við hótelið en það verður ekki gert í vetur vegna kostnaðar. Á hóteltímanum er uppselt í öll flug til Kiruna um helgar a.m.k. mánuð fram í tímann. Hótelið hefur leitt það af sér að veturinn er nú aðaltúristatímabilið í Jukkesjervi. Þetta er ekki lengur afskekkt smáþorp í víðáttunni fyrir norðan heimskautsbaug sem enginn (mjög fáir) veit af heldur staður sem jetset lið meginlandsins þekkir og heimsækir. Búið er að setja upp ísbari í Stokkhólmi, Milanó og London. Á þeim er eingöngu seldur Absolut vodki. Veturinn og myrkrið sem áður var sá tími sem menn þurftu að þrauka við ládeyðu er nú aðal auðlind héraðsins.

Það hefur verið skemmtilegt að heimsækja Kiruna og funda hér með kollegunum. Maður hefur kynnst kraftmiklu samfélagi sem tekst á við nýja og óvenjulega hluti s.s. geimrannsóknir, flutning á heilu samfélagi og jetset túrisma.

Engin ummæli: