Dvaldi yfir helgina austur á Vík á unglingalandsmóti UMFÍ. Keyrðum austur eftir hádegi á föstudag og komum í bæinn í gærkvöldi. Þetta voru fínir dagar, aðstaða hjá Vestur Skaftfellingum var góð og framkvæmd öll hin besta. Veðrið lék einnig við mótsgesti og eina rigningin sem kom var svo hugulsöm að falla á aðfaranótt sunnudagsins. Það er ekkert smá verkefni fyrir 500 manna samfélag að taka að sér svona verkefni en það er hægt að segja með sanni að framkvæmdin var þeim til mikils sóma. Hildur Vala kom og söng á föstudagskvöldið og heillaði alla upp úr skónum. María keppti í flokki 12 ára stelpna og stóð sig vel eins og hennar er von og vísa. Hún var fjórða í langstökki, önnur í hástökki og í sigursveit í 5 x 80 m boðhlaupi með stöllum sínum í ÍBR. Það sem mest var um vert var að henni fannst mjög gaman og fór að spyrja um það á heimleiðinni hvort við færum á mótið á Laugum í Suður Þing. á næsta ári. Vitaskuld förum við þangað ef nokkur kostur er. Það er mikið ævintýri fyrir krakka á þessum aldri að taka þátt í svona alvöru mótum þar sem þau eru í aðalhlutverki og umgjörðin öll til fyrirmyndar. Þetta er alvöru. Það hvetur þau til frekari dáða og meiri ástundunar. Ég held að unglingalandsmótið sé ein af betri hugmyndum sem UMFÍ hefur fengið og hrint í framkvæmt á seinni áratugum.
Ég sé í blöðunum að það er verið að taka aðeins í formann Samfylkingarinnar fyrir dylgjur vegna sölu Símans. Það er fínt. Það á ekki að láta fólk í slíkri stöðu komast upp með eitthvað bull og dylgjur. Málefnaleg umræða og efnisleg gagnrýni er nauðsynleg og forsenda fyrir því að lýðræðisþjóðfélag funkeri. en dylgjur, hálfkveðnar vísur og Gróusögur eiga heima í þriðju deildinni, en ekki í þeirri deild sem flokksformenn spila í.
Frekar finnst mér einkennilegt að leggja reikningslega afkomu símans á síðustu tíu árum sem einhvern grunn fyrir verðmati fyrirtækisins. Síminn var til mjög skamms tíma einokunarfyrirtæki sem setti gjaldskrána eftir eigin þörfum en ekki með hliðsjón af samkeppnisumhverfi. Í stjórn stofnunarinnar (Síminn var til skamms tíma stofnun en ekki fyrirtæki) sat fólk sem hafði litlar sem enga rekstrarlegar forsendur fyrir setu sinni þar heldur fékk stjórnarsetuna sem bitling fyrir vel unnin störf í þágu flokkanna. Gjaldskráin var sett með hliðsjón af útgjöldum símans og því hve stjórnin vildi hafa afkomuna góða. Verðmat Símans nú helgast algerlega af þeim framtíðarmöguleikum sem viðkomandi einstaklingar og fyrirtæki sjá í fyrirtækinu. Fortíðin skiptir þar engu máli.
Maður getur að lokum ekki varist því að spyrja sjálfan sig að því að ef sérfræðingar formanns Samfylkingarinnar teldu Símann a.m.k. 70 milljarða virði, af hverju þeir buðu ekki svona 69,5 milljarða í hann.
Ég sé að í sænsku blöðunum (Aftonbladet / Expressen) er mikil umræða um aukinn fjölda nauðgana í Svíþjóð á síðustu misserum. Það minnist ekki nokkur maður þar á að það þurfi að breyta kallamenningunni og kalla karla til ábyrgðar, fá þá til að tala saman um að láta af nauðgunum eða leggja ekki út í slíka hluti og svo framvegis, heldur er fjallað um þessi mál sem alvöru glæpi sem þurfi að bregðast við af fullum þunga. Þetta eru mál sem fá stærstu fyrirsagnir í blöðunum en ekki umfjöllun í einni setningu á innsíðu. Angi af þessari umræðu hér er að mér finnst að lögreglan sé oft að reyna að láta allt líta sem best út. Ég heyrði til dæmis viðtal við lögreglumann á Akureyri í gær. Hann var svo ljómandi ánægður með helgina. Að vísu voru allar fangageymslur fullar, allnokkuð af árekstrum og pústrum og nokkur fíkniefnamál höfðu komið upp en annars var allt í þessu ljómandi fína standi. Á íslensku hefði verið sagt að mikið hefði verið um slagsmál í miðbænum og eiturlyf verið til staðar eins og hver maður vildi. Hvað er verið að fela? Af hverju má ekki tala um hlutina eins og þeir eru? Það er ekkert sjálfsagður hlutur að það sé allt vaðandi í slagsmálum þótt fólk komi saman til að skemmta sér. Ég man til dæmis eftir því hvernig reynt var að berja niður alla umræðu um það sem úrskeiðis fór á fyrstu Halló Akureyri hátíðinni fyrir um 10 árum síðan. Þá var reynt að láta fókusinn í umræðunni snúast um að verslun og viðskipti hefðu aukist mikið í bænum og annað skipti ekki máli þótt hernaðarástand hafi verið í bænum alla helgina. Í fyrra varð allt vitlaust á tjaldstæðinu þar í bænum um verslunarmannahelgina en við því var brugðist á myndarlegan hátt af bænum, tjaldstæðið girt af og gæsla á því stórefld. Engu að síður sagði bæjarstjórinn að sú ákvörðun hefði verið mjög umdeild en hún sannaði sig örugglega. Það hefur mjög margt breyst til batnaðar á síðustu árum en til að geta tekist á við þau vandamál sem eru til staðar þarf að viðurkenna þau. Það má hins vegar ekki einblína á þau og gleyma því sem gott er og ánægjulegt. Sem betur fer er það yfirleitt meir áberandi, bæði um nýliðna helgi sem og aðrar.
mánudagur, ágúst 01, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli