mánudagur, ágúst 08, 2005

Það er dæmi um að stóratburðir hafi gerst í þjóðfélaginu þegar báðir spjall og fréttaskyringarþættir sjónvarpsstöðvanna eftir kvöldfréttir eru lagðir undir sama umræðuefni. Svo var í kvöld. Benedikt Sigurðsson frá Grænavatni, stjórnarformaður KEA, var mættur á báðar stöðvarnar og fjallaði um starfsmannaskipti hjá KEA, en Andri Teitsson framkvæmdastjóri lét nýlega af störfum. Því hefur verið blásið á loft að hann hafi hætt vegna þess að stjórn KEA hafi ekki viljað sætta sig við að hann færi í níu mánaða fæðingarorlof frá og með næstu áramótum. Það var sama hve oft Benedikt hafnaði þessari kenningu, hún var ætíð dregin aftur á flot af fréttamönnum stöðvanna og þingmanni Samfylkingarinnar sem mætti í ríkissjónvarpið. Það átti sem sagt að negla KEA og stjórnarformanninn sem andstæðing laga um fæðingarorlof.

Ég sé ástæðu til að fjalla aðeins nánar um þessa umræðu. Að hluta til voru lögin um fæðingarorlof skref fram á við en að hluta til voru þau meingölluð þegar þau voru sett að mínu mati. Þessi 80% regla sem unnið var eftir fyrstu árin var náttúrulega alveg út í hött. Það var Árna Magnússyni til sóma að hafa tekið á þessum málum og sett þakið við eitthvað á fimmta hundrað þúsund. Það er þó eitthvað betra en áður var þegar fæðingarorlof kvenna voru einhverjir smápeningar. Nefndur Andri hefði því fengið persónulega eitthvað um 10 milljónir af skattfé úr vösum almennings ef hann hefði farið í 9 mánuða fæðingarorlof að óbreyttum lögum, því mig minnir að hann hafi haft vel á aðra milljón í laun á mánuði í fyrra.

Benedikt vildi halda því fram að raunveruleikinn væri þannig að það ættu ekki að gilda eins fortakslausar reglur um fæðingarorlof hjá lykilstjórnendum eins og hjá svokölluðum almennum starfsmönnum. Því mótmælti krataþingmaðurinn harðlega og sagði anda laganna vera þann að menn ættu þennan rétt með hliðsjón af fjölskylduhagsmunum óháð stöðu. Þarna erum við komin að kjarna málsins. Menn eru farnir að líta svo á að rétturinn sé alfarið einstaklingsins en skyldurnar við vinnuveitenda sem kaupir vinnu þeirra verði minni og minni. Þessi hugsunarháttur er að grafa undan velferðarkerfum samfélaganna á Norðurlöndum og í Norður Evrópu. "Ég á þennan rétt, ég tek þann sama hvað það kostar" Svona hugsar fólk og framkvæmir í æ ríkara mæli þar á bæ. Velferðarkerfið er þar með farið að virka í andhverfu sína.

Við höfum reglur um 8 tíma vinnudag, við höfum reglur um frí á laugardögum og sunnudögum, við höfum reglur um sumarfrí. Hvernig ætli samfélagið myndi þróast ef allir myndu hugsa sem svo: "'Eg vinn ekki meir en 8 klst á dag, ég vinn aldrei um helgar og ég tek sumarfrí í júlí því þá eru mestar líkur á góðu veðri. Þetta er réttur minn því þetta er andi samninga og laga á vinnumarkaði." Það vita allir hvernig þessi mál eru framkvæmd. Ég segi t.d. fyrir sjálfan mig að ég sækist ekki eftir því að vinna um helgar en skorast ekki undan því ef skyldan kallar. Sú kvöð er í réttu samræmi við þau laun sem ég fæ. Algengast er að ég vinni 8 - 9 klst á dag en vinnutíminn getur verið lengri ef svo ber undir. Við verðum að taka frí í tvær vikur í júlí en annars er reynt að stilla sumarfríi þannig af að það passi bæði fjölskyldunni og vinnuveitandanum. Þannig eru þessi mál framkvæmd í samvinnu með tilliti til hagsmuna beggja aðila. Svo kemur allt í einu fæðingarorlof. Þá á það að vera fortakslaus réttur einstaklingsins að hann geti gengið út hvenær sem er og hvernig sem á stendur hjá fyrirtæki eða stofnun af því að það sé verið að hlú að hagsmunum fjölskyldunnar. Eins og það séu ekki hagsmunir fjölskyldunnar að geta verið heima þegar hóflegum vinnudegi er lokið, eins og það séu ekki hagsmunir fjölskyldunnar að foreldrar geta verið saman með börnunum um helgar, eins og það séu ekki hagsmunir fjölskyldunnar að báðir foreldrar geti verið samtímis í sumarfríi en raunveruleikinn er stundum annar.

Það er síðan svo merkilegt að ætíð þegar verið er að tala um fæðingarorlof þá er strax byrjað að setja umræðuna í samhengi við hálaunaða stjórnendur og að lögin auðveldi konum að takast á við hálauna stjórnendastörf. Svo var einnig í kvöld á báðum sjónvarpsrásunum. Er það kannski ein meginstefna jafnréttisbaráttunnar að fjölga konum í klúbbnum sem hefur yfir eina milljón á mánuði? Hvað með annað? Ég segi fyrir mína parta að mér finnst miklu meir um vert að geta sinnt krökkunum á kvöldin og um helgar í hinu daglega lífi gegnum árin en þótt ég hefði verið heima í einhverja mánuði þegar þau voru ómálga kornabörn en þurfa svo að vera svo sífellt burt af heimilinu þegar þau þurfa kannski mest á því að halda að foreldrar séu nálægir og sinni þeim eftir bestu getu. Ég er kannski einn um þessa skoðun en ég hef hana engu að síður. Ég veit hins vegar að þessi afstaða dregur úr því að ég muni einhvern tíma verða ráðinn í tímafrek hálaunastörf, svo ólíklegt sem það er, en þannig er það nú bara, maður verður stundum að forgangsraða í lífinu.

Forstöðumenn fyrirtækja eru oft mjög vel launaðir, jafnvel svo að ýmsum þykir nóg um. Þeim eru greidd þessi laun vegna einhverrar sérþekkingar eða hæfileika sem nýtast fyrirtækinu vel. Það liggur því í augum uppi að það er ekki einfaldur hlutur ef þeir geta labbað út úr starfinu mánuðum saman óháð því hvernig stendur á. Það geta verið í gangi viðkvæmar viðræður, flóknir samningar, flóknar og umfangsmiklar framkvæmdir og fleira sem skiptir framtíð fyrirtækisins miklu. Lykilmenn fyrirtækja ganga ekki út á mínútunni á hverjum vinnudegi, þeir vinna iðulega um helgar og oftast er reynt að taka sumarfrí þannig að það passi báðum aðilum. Allt skiptir þetta þó einnig máli hvað varðar fjölskyldu viðkomandi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um töku fæðingarorlofs? Ég tek því heilshugar undir gagnrýni Benedikts á framkvæmd á lögum um fæðingarorlof.

Engin ummæli: