Ég sit hér norður í Kiruna í Svíþjóð og er nýbúinn að skoða fréttir að heiman. Hér funda hagdeildir norrænu sveitarfélaga sambandanna og bera saman bækur sínar um hvað er efst á baugi í hverju landi fyrir sig. Í fyrra var fundað áÍslandi og meðan fundurinn stóð reið yfir ein mesta hitabylgja sem komið hefur heima suðvestanlands í langan tíma. Kollegarnir eru enn í skýjunum yfir heimsókninni. Kiruna er einn af norðlægari bæjum í Svíþjóð. Hér hverfur sólin í 6 - 7 vbikur á hverju ári en að sama skapi er hún á lofti óslitið jafnlengi yfir hásumarið. Í Kiruna er stærsta neðanjarðarnáma í heimi. Þar er járn grafið fram. Um 1960 var Kiruna ríkasta sveitarfélag í Svíþjóð og hafði í meðaltekjur um 3,5 sinnum hærri tekur en meðaltal sveitarfélaga var. Síðan fór að halla undan fæti. Nú hefur skyndilega birt aftur í lofti. Eftir að hagvöxtur í Kína fór vaxandi jókst eftirspurn eftir málmi. Nú selst allt sem hægt er að framleiða og allt er keyrt á fulli svingi. Því er leitað að nýjum málmæðum. Það hefur komið í ljós að Kiruna bær (ca 25 þúsund manns búa í honum) stendur á mjög málmríku bergi. Því stendur til að flytja bæinn í heilu lagi á næstu áratugum svo hægt sé að nýta auðlindirnar undir honum. Það er talið kosta um 130 milljarða íslenskra króna. Í Kiruna er bæði fallegasta kirkja Svíþjóðar og einnig fallegasta ráðhús Svíþjóðar. Við skoðuðum kirkjuna í dag. Hún var byggð í "Lappkoja" stíl fyrir tæpum 100 árum. Það er talið líklegt að það þurfi að flytja hana innan 20 - 30 ára. Það er talið vel framkvæmanlegt því hún er að mestu leyti skrúfuð saman. Hún tekur a.m.k. 1000 manns í sæti, öll úr timbri.
RM nálgast. Þetta verður fyrsta árið síðan 1994 sem ég verð ekki með, en þá vorum við feðgar nokkursskonar laumufarþegar í skemmtiskokki, með ófyrirsjéðum afleiðingum. Því miður virðist ætla að verða heldur leiðinlegt veður á helginni. Það er synd því stemmingin fer svo mikið eftir veðrinu. Margir eru búnir að leggja mikið á sig með undirbúning og slæmt ef ekki næst hámarksárangur vegna veðurs.
Danirnir minnast dálítið á kaup Baugsmanna á Magasín. ekki að þeir sjái svo mikið eftir því heldur segja þeir að það sé slæm fjárfesting því reksturinn hafi gengið svo illa undanfarin ár. Spennandi verður að sjá hvort breyting verði þar á. Málaferlin gegn Jóni Ásgeiri og þeim Baugsmönnum hafa vakið verulega athygli þar.
Víkingur og KA gerðu jafntefli fyrir norðan. Ekki alslæm úrslit því þá er Víkingur enn með spilin í sínum höndum en engu að síður slæm því Víkingur misnotaði vítaspyrnu. Vonandi kemur það ekki til með að ráða úrslitum.
fimmtudagur, ágúst 18, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli