Nú er enn eitt stóra málið komið upp. Persónuverndarmálið mikla. Fjölmiðlar súpa hveljur af fögnuði og allir einhenda sér í umræðuna. Fréttir, kastljósþættir og dagblöð eru undirlögð af þessu. Mikið er gaman að fá eitthvað til að fjalla um. Maður spyr eftir að hafa hlustað á þessa umræðu; Hvað er persónuvernd? Er það persónuvernd að koma í veg fyrir að vitleysingar og glæpamenn geti þjónað lund sinni eða er það persónuvernd að tryggja að nemendur á heimavist geti búið þar tiltölulega tryggir. Þegar skólameistarar segja að eftirlitsmyndavélar hafi gjörbreytt ástandinu til hins betra en síðan kemur Persónuvernd og bannar notkun þessara véla þá spyr maður hvern er verið að vernda. Eftirlitsmyndavélar eru einföld og ódýr aðferð til að hafa eftirlit með umferð og hegðan fólks, því miður ekki að ástæðulausu. Það hefur leyst margan vanda sem áður var ekki mögulegt að leysa. Minna má á að með eftirlitsmyndavélum var hægt að sanna sekt svíans sem myrti Önnu Lindt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, fyrir tveimur árum. Með eftirlitsmyndavélum var hægt að finna og sanna sekt mannsins sem lagði til annars með hnífi í miðbæ Reykjavíkur um síðastliðna helgi. Í verslunum er nauðsynlegt að hafa eftirlitsmyndavélar. Þannig mætti áfram telja. Vitaskuld verður að hafa ákveðnar reglur og ákveðin takmörk en sama er, þjóðfélagið er orðið breytt og viðbrögðin verða að vera eftir því. Mér finnst framkvæmdastjóri persónuverndar skera dálítið þykkt þegar hann segir að íslendingar séu komnir með eftirlitsæði. Eftirlitsfóbía er ekki betri. Af hverju er framkvæmdastjóri Persónuverndar að tiltaka einhver starfsmannapartíadæmi þegar hún hefði alveg eins getað tekið dæmi um mál þar sem eftirlitsmyndavélar hafa komið að miklu gagni og verið lykilatriði í lausn mála? Mér finnst því eftir standa að ósvarað er spurningunni: Hvað er persónuvernd?
Hvar var Mogginn staddur á laugardaginn þegar RM fór fram. Í RM tóku þátt yfir 4000 manns. Reyndar var forsíðumynd í Mbl á sunnudaginn en síðan er skýrt frá helstu niðurstöðum í örfáum fersentimetrum nú í morgun. Engar myndir, engin viðtöl. Fréttablaðið og DV hafa haft ágætis umfjöllun og viðtöl við keppendur. Síðan var flott viðtal í kastljósinu í kvöld við systkinin Ernstbörn. Þau eru náttúrulega bæði frábærir íþróttamenn og persónur. Mér finnst mogginn setja ofan við þetta skeytingarleysi. Svo er nú fimbulfambað um eitt og annað íþróttalegs eðlis í blaðinu sem ekki er ákaflega merkilegt að það hefði mátt nota nokkra dálksentimetra undir frásagnir og viðtöl við þátttakendur í RM. Maður sér nefnilega ekki svo ósjaldan ekkifréttir af íþróttamönnum sem eru eftirlæti íþróttafréttamanna (kom ekki inn á í leiknum, skorðaði ekki í leiknum) að það hefði alveg mátt veita þessum mikla hlaupaviðburði meiri athygli og umfjöllun í Mbl. Blaðið hefur nefnilega skyldum að gegna við þennan íþróttaviðburð eins og aðra.
miðvikudagur, ágúst 24, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli