Ég veit ekki hvort ég á að kalla mig veiðimann. Mér leiðist að veiða með stöng, ég vil heldur leggja net og vitja um það daginn eftir. Ég ligg ekki nótt eftir nótt í skurðum í þeirri von að gæs slysist til að setjast svo nálægt að ég geti skotið hana og ég hef ekki enn reynt að kaupa mér veiðileyfi á hreindýr fyrir austan. Engu að síður á eg 5 byssur og hef afar gaman af að ganga upp á fjöll með byssu. Hér áður fyrir vestan var það helst tófan sem maður var á útkíkki eftir á vornóttum eða vetrarkvöldum en nú er Snorrabúð stekkur. Miðað við upptalninguna hér að framan er lítið eftir nema rjúpan. Ég komst upp á bragðið með rjúpnaveiði norður á Melrakkasléttu þegar ég bjó þar um nokkurra ára skeið og eg vona að sú baktería sem ég fékk þar verði virk um ókomna framtíð. Ég get hins vegar ekki talið mig í hópi magnveiðimanna eins og sú tegund manna heitir sem veiðir meir en þeir hafa þörf fyrir að éta. Ég held að ég hafi mest skotið 30 - 40 rjúpur sama haustið. Mest borðaði maður sjálfur, annað gaf maður og kannski seldi maður eina og eina ef þannig lá við. Maður gat þá réttlætt aðeins skota- og bensínkostnaðinn. Nú hefur verið bann á veiðum á rjúpum í tvö ár og hefur það verið slæmur tími. Mann fer að langa til að skreppa í góða gönguferð upp á fjöll með byssuna þegar fer að hausta en hefur því miður þurft að sjúga þumalinn á haustin síðustu árin.
Ég held að að hafi verið rétt að taka þessa ákvörðun á sínum tíma og reyna að koma skikk á þessi mál. Langflestir veiðimenn eru á svipuðum nótum og ég, veiða lítið og hafa fyrst og fremst gaman af þessu. Það er hins vegar staðreynd að sá hluti sem veiðir eins og hann getur er ekki alltaf til fyrirmyndar. Maður taldi stundum allt að níu púff í röð þegar skothvellirnir heyrðust í kyrrðinni upp á fjöllum. Engu að síður er bannað að hafa nema að hámarki þrjú skot í byssunni í einu. Maður heyrði sögur af mönnum sem stóðu á palli bílanna með alvæpni þegar keyrt var meðfram sköflunum í hjallabrúnum eins og eru víða inni á heiðum fyrir norðan eða bílarnir voru með hurðirnar bundnar upp. Rjúpur eru ekki eins varar um sig gagnvart bílum eins og gangandi mönnum. Síðan dundi skothríðin á flokkana þegar skotfærið var orðið nógu stutt. Þá var um að gera að hafa nógu mörg skot í hlaupi. Sama gegndi um fjórhjólin, maður heyrði af að þau væru notuð í sama tilgangi. Þegar snjórinn var kominn og rjúpan búin að dreyfa sér og gangandi menn voru að reyta upp eina og eina þá voru snjósleðarnir dregnir fram og móabörð og skorningar þræddir á stóru svæðum og rjúpan týnd upp.
Þegar Umhverfisráðuneytið vildi draga úr veiðiálagi á sínum tíma með því að stytta veiðitímann þá var það gert á eins vitlausan hátt og hægt var að mínu mati. Það var bannað að veiða í desember. Þá er snjór orðinn mikill til fjalla og dagur orðinn mjög stuttur þannig að það eru allt aðrar aðstæður til veiða heldur en fyrst á haustin. Það kom fyrir haust eftir haust fyrir norðan að maður var að veiða á alauðri jörð í sólskini og hita fyrstu tvær vikur veiðitímabilsins eða frá 15. okt. til mánaðamóta. Rjúpan var eins og endurskinsmerki á jörðinni og átti sér engrar undankomu auðið. Um mánaðamótin okt/nóv fór oft að hreyta snjó og þá urðu alger kaflaskil í veiðinni. Erfiðara var að sjá fuglinn, hann dreifði sér meir og mun erfiðara var á veiða. Náttúran sá þannig sjálf um verndun rjúpunnar. Stytting veiðitímabilsins átti þannig að vera fyrst á haustin til að hafa einhver áhrif. Sérfræðingar segja að afföll rjúpunnar séu mest á haustin (okt/nóv). Því hefði töluvert stór hluti af þeim fugli sem skotinn er drepist hvort sem er.
Ég hef verið að lesa þær tillögur að reglum sem Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa sent frá sér um reglur um rjúpuveiðar. Sú lesning er að mörgu leyti athyglisverð. Þeir leggja fram tillögur að veiðiálagi samkvæmt ákveðnum útreikningum. Umhverfisstofnun reiknaði t.d. út að varpstofninn hafi verið 219.647 fuglar vorið 2005. Ég verð nú bara að segja að svona tölu lætur enginn maður frá sér sem ber einhvert skynbragð á tölfræði. Hvað eru þorskarnir margir í sjónum? Skyldi þessi tala hafa verið fundin út áður eða eftir en fálkinn tók rjúpuna norður á Vatnsskarði seint í júní? Fuglastofn verður aldrei metinn nema með það miklu óöryggi að lágmarksnákvæmni er talinn í tugum þúsunda í þessu tilviki eða jafnvel í hundruðum þúsunda í stærri stofnum. Út frá þessari tölu (219.647 stk) er síðan veiðiálagið fundið með vísindalegum útreikningum. Niðurstaða þeirra er að veiðistofninn mun telja þann 1. nóv. 764.590 fugla og með enn einni formúlunni fæst að veiðiþol stofnsins má vera 67.022 fuglar (sem er síðan hækkað upp í 70.000 fugla). Neðri mörk veiðiþols er enginn fugl en efri mörk veiðiþols eru 125.000 fuglar. Það er ljóst að maður hefði getað komist að svipaðri nðurstöðu með því að rétta puttann út um gluggann.
Enda þótt að stærðfræðilegir útreikningar séu vafalaust réttar þá verður niðurstaðan aldrei nákvæmari en þær forsendur sem unnið er út frá. Eina viðmiðunin sem menn hafa til viðmiðunar er árið 1955 þegar talið var að stofn rjúpunnar hafi verið 740.000 - 940.000 fuglar. Hér áður voru menn þó það ver tækjum búnir að þeir höfðu ekki möguleika til að telja stofninn upp á fugl en létu sér nægja óvissu upp á 200.000 fugla. Það er stundum talað um GIGO effektinn. Garbage in - garbage out.
Ein af forsendum Náttúrufræðistofnun Íslands fyrir mati á veiðiálagi er að veiðidánarstuðull (á íslensku eru þetta fjöldi veiddra fugla) bætist 100% við náttúrulegan dánarstuðul (á íslensku eru það fjöldi rjúpna sem drepst af náttúrulegum örsökum) rjúpnanna. Þeir halda því sem sagt fram að engin þeirra rjúpna sem veiddar verða hefðu drepist af náttúrulegum örsökum eftir sem því sem ég skil þetta best. Þessu get ég ekki verið sammála. Mér finnst svona kenning skrítin. Án þess að ég viti það gjörla þá hlýtur að drepast af náttúrulegum örsökum töluvert hlutfall þeirra fugla sem sleppa við veiðimanninn. Það gæti verið um 30%. Því er veiðiþol stofnsins vanmetið í útreikningum Náttúrufræðistofnunar að mínu mati sem þessu nemur ef ég skil þetta rétt.
Tillögur að reglum um veiðistýringu eru flóknar og margsskonar.
1. Sölubann: OK svo langt sem það nær en það myndast svartamarkaður eins og með brugg á vínlausu árunum. Þá kemur spurningin; Verða rjúpur fluttar inn? Ef svo er verður hægt að þekkja sundur innlendar og erlendar rjúpur í frystinum?
2. Veiðitímabil frá 19., okt til 3. des. Vísa til þess sem ég hef sagt áður að virk aðferðin til að vernda rjúpuna er að byrja veiðar ekki fyrr en um mánaðmót okt. / nóv. Desember skiptir litlu máli í þessu sambandi. Mér finnast rökin fyrir því að rjúpur lifandi í desember séu verðmætari en rjúpur fyrr um haustið því meiri líkur séu til að þær lifi af veturinn ekki vega mjög stórt í þessari umræðu. Í desemberbyrjun er veturinn rétt byrjaður. Eftir eru desember, janúar, febrúar, mars og apríl sem allir geta verið harðir mánuðir. Ef afföll eru meiri í október og nóvember af náttúrulegum ástæðum en næstu 5 mánuði yfir háveturinn þá er það eitthvað sem ég vildi fá meiri og betri upplýsingar um áður en ég tek það gott og gilt.
3. Færri veiðidagar í hverri viku. Bannað að veiða á sunnudögum, mánudögum og þriðjudögum. Mjög erfitt í framkvæmd. Ætlar lögreglan að vera á fartinni um allt land til að fylgjast með þessu s.s. með einstökum landeigendum. Einnig ranglátt gagnvart þeim sem fara um langan veg og ætla að nota helgina (frídaga) til veiða. Þetta á ekki síður við hófsama veiðimenn heldur en magnveiðimenn.
4. Það sem ríkið má ekki gleyma í þessu sambandi er áhrif vargsins, minks og refs, á rjúpustofninn. Þessi kvikindi fara eins og ryksugur um landið á vorin og framan af sumri og þurrka upp unga og egg. Síðan er máfurinn farinn að harka inni á heiðum ofan í kaupið. Á meðan ríkisvaldið þverskallast við að bera eðlilega ábyrgð á þessum málum en tuddast á fámennum og fjárvana sveitarfélögum og skellir allri (eða því sem næst allri) ábyrgð þessara mála á herðar þeirra, þá er ekki von að vargnum sé haldið niðri eins og nauðsynlegt er. Veiðar refs og minks flokkast undir almannaheill og almenna náttúruvernd en ekki staðbundna hagsmuni íbúa í einstökum sveitarfélögum.
Jæja þetta er orðin nógu löng yfirferð. Ég er sammála því að það varður að draga úr sóðaskapnum og græðginni eins og hægt er til að tryggja viðhald rjúpnastofnsins eins og frekast er unnt og góða umgengni um þessa auðlind. Rjúpnaveiði er afar góð upplifun og ekki er síðra að eta bráðina á góðri stundu. Ég hef einu sinni keypt rjúpur og þær brögðuðust ekki næstum því eins vel og mínar eigin.
fimmtudagur, ágúst 25, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli