þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Nú er umræðan um næsta borgarstjóra í Reykjavík hafin á fullu. Hún byggir á skoðanakönnun Fréttablaðsins sem var birt í morgun. Þar hefur Gísli Marteinn nauma yfirburði fram yfir aðra sem nefndir eru. Það sem fáir tala um og enn færri hafa skoðun á er að niðurstöðurnar skoðanakönnunarinnar eru gjörsamlega ómarktækar. Þegar svarhlutfallið er komið niður í 40% þeirra sem reynt er að hringja í sjá það allir sem vilja sjá að niðurstöður úr minnihluta aðspurðra geta ekki verið dæmigerðar fyrir heildina. Menn vita ekkert um afstöðu þeirra sem eftir eru og þegar sá hópur er meir en helmingur af heildinni þá skiptir hann máli.

Í sveitarstjórnarkosningum hérlendis kjósa um 85% kjósenda. Því er segir 40% svörun í skoðanakönnun ekkert um hver afstaða heildarinnar er. Maður spyr sig hve langt þarf svörunin að fara niður til að sjálfskipaða fagfólkið á fjölmiðlunum segi; "Niðurstöður þessarar könnunar eru ekki marktækar" Þarf svarhlutfallið að fara niður í 30%, 20% eða 10%? Er frétta- og umfjöllunarþurrðin svo mikil að allt er gripið á lofti til að geta fyllt úr í frétta- og umræðutíma. Er gagnrýnin hugsun ekki fyrir hendi? Einungis Jóhann Hauksson hefur sett fram efasemdir um að svarhlutfallið væri nógu hátt til að mark væri takandi á niðurstöðunum það ég hef heyrt. Miðað við þessi vinnubrögð er ekki úr vegi að settar séu opinberar reglur um hvaða lágmarkskröfur þurfi að uppfylla til að niðurstöður skoðanakannana teljist marktækar. Mér finnst þessi umræða segja meir en margt annað um þann standard sem er hjá starfsfólki fjölmiðla hérlendis. Sem betur fer hafa menn aukin tækifæri til að fylgjast með fréttaskýringaþáttum í erlendum fjölmiðlum og fá þannig samanburð um hvernig fagmennska í þessu efni lítur út.

Það kemur einstaka sinnum fyrir að ég fer í viðtöl í útvarpi. Yfirleitt er þetta í lagi og spyrjendur hafa sett sig svolítið inn í það efni sem ræða á. Steininn tók þó úr um daginn. Þá mætti ég í smá viðtal og spyrjandinn vissi akkúrat ekki neitt um það sem ræða átti um. Þegar græna ljósið kviknaði var sagt; "Byrjaðu bara". Síðan þurfti ég að móta bæði spurningar og svör. Þetta var sem betur fer ekki í beinni útsendingu heldur var þetta klippt og talað inn á það síðar. Ég heyrði sem betur fer ekki útkomuna.

Engin ummæli: