Ég horfði nýlega á myndina Good bye Lenin sem fjallar um austurþýska konu sem fær heilablóðfall í þann mund sem austurevrópska blokkin er að falla. Þegar hún vaknar úr dái eftir 8 mánuði er hún of veikburða til að geta tekist á við að horfast í augu við að kommúnisminn í Austur Evrópu er fallinn. Því reyna börn hennar að skapa hinn forna raunveruleika í kringum tilbúið sjónvarpsefni og fleira til að forða henni frá áfallinu. Það er undarlegt að rifja þessa tíma upp. Það voru ógleymanlegir tímar á haustdögum 1989 þegar austurevrópski kommúnisminn féll eins og spilaborg. Hver einræðisherrann á fætur öðrum gafst upp. Grunnurinn að valdakerfi þeirra, herinn og leyniþjónustan, var einskis megnug þegar á reyndi. Þessi lönd voru öll meira og minna gjaldþrota því kommúnisminn felur það í sér að eðlilegt hagkerfi getur ekki gengið upp. Ég kom einu sinni sinni til Vestur Þýskalands á fyrri hluta níunda áratugarins. Þá sá maður skotturnana í fjarska við austurþýsku landamærin þar sem vopnaðir verðir stóðu vaktina til að forða því að enginn skyldi strjúka vestur yfir. Enda þótt ekki sé lengra síðan þá virkar þetta ótrúlegt og fjarlægt að ástandið skuli hafa verið svona. Sama má segja um Eystrasaltslöndin. Nú eru þau fullgildir aðilar í samfélagi þjóðanna eftir að hafa verið undir járnhæl Sovétríkjanna um áratuga skeið.
Ég las einnig nýlega bókina Dætur Kína eftir XINRAN. Í henni eru birtar reynslusögur allmargra kínverskra kvenna. Í sjálfu sér er víða hægt að finna átakanlegar sögur um misnotkun og allskonar djöfulskap. Ég þekki persónulega konur sem gætu án efa skýrt frá áþekkum hlutum og þarna er gert. Á hinn bóginn er bókin vafalaust sérstök að því leyti að kínverskar konur hafa ekki verið að bera sig á torg og því hefur verið afrek út af fyrir sig að fá þessar konur til að skýra frá reynslu sinni þegar hefðin var sú að það var þagað yfir öllu. Það eru hins vegar aðrir hlutir sem virkuðu sterkar á mig. Þar má nefna hvílík ógnarskelfing hefur verið fyrir þjóðina að hafa hina skelfilegu hönd Maóismans yfir sér um áraraðir með öllum þeim tilbrigðum sem henni fylgdu. Fólk var drepið, svívirt, pínt og kvalið árum og áratugum saman fyrir engar sakir nema þær kannski að geta lesið bækur og vera þannig betur staddur en sauðsvartur almúginn. Ómenntaður skríll (rauðu varðliðarnir) réði öllu og var grunnurinn að völdum Maós. Menntamenn voru hataðir ef ekki drepnir. Annað sem stingur mann í augun er hin skelfilega fátækt, vanþekking og bjargarleysi sem fólk var víða fast í, konur jafnvel frekar en karlar. Maður skilur þörfina fyrir öfluga kvennahreyfingu sem berst fyrir réttindamálum kvenna við þennan lestur. Þeim mun meir absúrd virka áherslur kvennahreyfinga hérlendis sem virðast að verulegu leyti ganga út á að telja saman og reikna út hlutfall karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllinni.
Mikið hefur verið talað árum saman um þörfina fyrir mislæg gatnamót þar Kringlumýrarbraut og Miklabraut skerast. Aðrir valkostir hafa ekki verið í umræðunni. Þarna hafa verið hættulegustu gatnamót landsins um áraraðir. Mislæg gatnamót áttu að kosta einhverja milljarða og voru gríðarlegt fyrirtæki samkvæmt umræðunni. Nú í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir við þessi gatnamót. Grasinu milli akreina var mokað burt, akreinum fjölgað, strætisvögnum gefinn forgangur á ákveðnum akreinum og gatnakerfið rýmkað. Þetta tók tiltölulega skamman tíma. Ég fæ ekki séð annað en að þessar breytingar hafi leyst mikið af þeim vandamálum sem þarna var búið að berjast við í áraraðir. Það er stundum svo að menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum og eru búnir að tala sig upp í nauðsyn á stórum og viðamiklum lausnum þegar einfaldar og ódýrar lausnir ná allt að því sama árangri. Þegar Vatnsmýrarframkvæmdirnar koma til viðbótar verður umferðin vestur í bæ miklu greiðari. Maður finnur þetta best á því hvenær námsmennirnir sem þurfa að fara með strætó niður í bæ þurfa að leggja af stað.
mánudagur, ágúst 29, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli