föstudagur, ágúst 12, 2005

Ég er sjaldan hrifinn af Tony Blair. Lægra verður varla komist en að nenna ekki að fara í jarðarför fyrrverandi samráðherra síns. Þó verð ég að segj að ég var hrifinn af kallinum í síðustu viku þegar hann kynnti aðgerðir til að taka á öfgafólki í Bretlandi. Einstaklingum sem vinna á móti samfélaginu verður héðan í frá umsvifalaust vísað úr landi ef það lætur á sér kræla. Ég tek ofan fyrir þessu. Mannréttindasamtök margskonar eru vitaskuld þegar farin að jarma en hvað með það. Það er náttúrulega óþolandi þegar fólk flytur til einhvers lands, nýtur allra gagna og gæða sem í landinu finnast en forsmáir og fyrirlítur landið, hefðir þess og menningu og stefnir að því að kollvarpa stjórnkerfinu. Slíkt lið er best geymt heima hjá sér. Ég þekki vel til á norðurlöndum og hef svolitla innsýn í þau gríðarlegu vandamál sem innflytjenda stefna kratanna á liðnum áratugum hefur haft í för með sér. Í Danmörku er Anders Fogh Rasmussen farinn að láta hendur standa fram úr ermum í þessum efnum. Loksins.

Ég sá nýlega viðtal í nýju Mannlífshefti við Ólaf Hauk Símonarson skáld sem dvelur nú úti í Danmörku. Ég hef ekki heyrt hann kenndan við öfga fram til þessa þannig að ég tek mark á því sem hann segir. Ég vil því citera aðeins í hluta af viðtalinu við hann, orðum mínum til stuðnings, um ástandið þar í landi en hann bjó þar einnig á áttunda áratugnum:

"Samfélagið er gjörbreytt" segir Ólafur. "Þetta kallast víst fjölmenningarlegt samfélag. Það virðist þýða að samnefnarar þjóðarinnar eru meira og minna að gufa upp. Múhameðstrúarmenn eru fyrirferðarmiklir hérog heimta að fá að ala börn sín upp í múslímskum aga, þar sem strákarnir eru dýrkaðir sem guðir og mega allt en stelpurnar eiga að halda kjafti og helst breiða yfir andlitið á sér. Verulega margir múslímar í Danmörku hafa þá skoðun að lögboð Kórarins séu dönsku stjórnarskránni æðri, þannig að löggjafarvald, dómsvald og refsivald eigi að vera hjá klerkunum þeirra. Talsverður hópur múslíma í Danmörku telur rétt að kollvarpa stjórnskipun danmerkur með vopnavaldi. Það gengur illa að fá múslímana til að senda krakkana sína í danska skóla, hér hafa orðið til næstum hrein innflytjendahverfi þar sem glæpatíðnin er há. Því miður hafa vandamál tengd innflytjendum haft mjög víðtæk áhrif á dönsku þjóðina, þolimæði, umburðarlyndi og gamla góða danska brosið, þetta er allt á undanhaldi"

Svo mörg voru þau orð. Þegar maður heyrir síðan stanslausan árðóður fyrir því hérlendis að fólk eigi að sýna umburðarlyndi og "fjölmenningarsamfélagi" fylgi ekkert nema kostir, þá rennir maður af og til auga yfir hafið og spyr; "Getur maður ekki lært eitthvað af reynslu Dana til að fyrirbyggja að sömu vandamál flæði hér yfir".

Keypti Útiveru í dag. Það eru margar á ágætar greinar greinar í blaðinu, meðal annars ein um kajakróður frá Húsavík austur á Raufarhöfn. Kajakróður er eitt af því sem ég ætla mér að takast á við í náinni framtíð. Ég held að maður uppgötvi landið úr nýrri vídd með að ferðast þannig meðfram ströndum þess.

Í blaðinu er gerð samanburðarkönnun á nokkrum handhægum stafrænum myndavélum. Mér finnst að þar vanti vélina sem ég keypti mér í vetur og hefur fylgt mér síðan við ýmsar aðstæður, í frosti, í rigningu, á hlaupum við meir en 30 stiga hita o.s.frv. Hún er af týpunni Konica Minolta Dimage X50, 5 MP. Hún er með spegillinsu en ekki með linsu sem er ýtt út. Það hefur tvo kosti í för með sér. Í fyrsta lagi er hún mjög hraðvirk sem er kostur og í öðru lagi eyðir hún minni orku við að losna við að ýta linsunni út og einnig eru færri fletir sem geta bilað. Svo er hún lítil, handhæg og með stóran skjá. Get mælt með þessari vél til margra hluta (ég er ekki á prósentum). Ókostir eru lítið flass og smæð linsunnar kemur í ljós þegar dimmt er úti. Hún kostar einhvern 26 þúsund kall plús batterí upp á 5 þúsund kall og síðan þarf almennilegt kort. Það er nefnilega afar þægilegt að hafa litla handhæga myndavél í beltinu í gönguferðum, á hlaupum, á hjólreiðum eða hvar annarsstaðar sem maður er að brasa eitthvað þar sem betra er að vera með léttan mal.

Tók léttan hring í kvöld. Fer að auka við hlaupin eftir letilíf sumarsins. Finn mér til ánægju í brekkunum að ég hef líklega sjaldan verið sterkari en ég er nú. Ég ætla næstu vikurnar að einbeita mér að frekar stuttum hlaupum en sinna hraðanum þeim mun betur.

Engin ummæli: