þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Sem betur fer hefur skapast umræða um vinnubrögð Baugsmiðlanna í máli ákæruvaldsins gegn forystufólki Baugs. Mest er þó talað um vinnubrögð blaðamanna Fréttablaðsins en minna um DV, enda tekur kannski enginn mark á því. Kem að því síðar. Hvaða vinnubrögð eru það t.d að birta ákærurnar orðréttar og viðtöl við sakborningana. Hvar er blaðamennskan? Fyrirsögnin á forsíðunni æpti framan í mann. Þetta sýnir náttúrulega að það var engin tilviljun að Baugur vildi eignast fjölmiðla. Með því hafa þeir betri möguleika á að tefla erfið áróðursstríð í varnarskyni eins og hér um ræðir og eins að heyja áróðursstríð gagnvart öðrum. Ég studdi fjölmiðlafrumvarpið í fyrra efnislega, enda þótt kannski hefði mátt sníða einherja skafanka af því. Princippin voru rétt að mínu mati.

Það var tekið lítið og ómerkilegt viðtal við mig af blaðamanni Fréttablaðsins um daginn. Mér þótti tryggara að fá að lesa það yfir sem haft var eftir mér eftir því hvernig viðtalið við blaðamanninn þróaðist. Þá sagði hann að það væri ófrávíkjanleg regla að viðmælendur fengju viðtölin ekki skrifuð í hendur en hann skyldi lesa textann fyrir mig. OK, þetta var í lagi og í ljós kom að ekki var vanþörf á að heyra hvað haft var eftir mér. Síðan sér maður að í stóra Baugsmálinu er hin ófrávíkjanlega regla brotin og viðtöl send út til yfirlestrar. Það er greinilega ekki sama Jón og Séra Jón. Maður veit það þá bara.

Að sjá svo blaðamennskuna hjá DV gagnvart ákærum á Baug. (ef hægt er að kalla þetta blaðamennsku). Því er slegið fram að Jón Ásgeir sé ákærður fyrir að kaupa hamborgara og kók. Annað ekki. Punktur. Enda þótt síðdegispressan í nágrannalöndum okkar þyki ekki alltaf beysin, þá þori ég að hengja mig upp á að hún hefði tekið svona umræðu af alvöru en ekki verið með tóman bjálfaskap. Þrátt fyrir að DV hafi skrapað botninn í ýmsum málum þá held ég að það hafi varla komist neðar en í dag. Birt er svokallað viðtal við Akureyring nokkurn sem segir sínar farir ekki sléttar af viðskiptum við lögfræðing nokkurn. Sá hafði víst haft konuna af þeim fyrrnefnda. Ég get ekki meint annað en að þetta "viðtal" byggist á almennu spjalli milli kunningja sem síðan er farið með beint í blaðið. Viðkomandi sem hafði létt á hjarta sínu við kunningjann sér sig svo á forsíðu DV og uppsláttarfrétt á innsíðu. "Finniði einhverjar focking fréttir" sendir ritstjórinn út á emaili til "blaðamanna" sinna. Þeir hafa greinilega fundi "focking" frétt þarna.

Heyrði í Hjördísi hjá RM í dag í útvarpinu. Mikið hefur verið rætt um RM í fjölmiðlum undanfarnar vikur og er það vel. Með mikilli umfjöllun er hægt að byggja upp spennu og umræðu sem laðar fleiri til leiks. Á þennan hátt ætti að vera hægt að auka veg RM enn frekar og vekja athygli fjölmiðla í ríkari mæli. Vafalaust má læra af erlendum hlaupum enn frekar varðandi hvernig þeir byggja upp ýmsar hefðir. Í Boston maraþoni er t.d. haldið barna- og ungmennahlaup daginn áður en aðalhlaupið fer fram. Þar er allt undirlagt í fjölmiðlum á maraþondaginn. Vonandi fær maður að upplifa Boston maraþon áður en langt um líður.

Engin ummæli: